140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

580. mál
[18:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Lánin eru verðtryggð miðað við lánskjaravísitölu, flest. Lífeyririnn er verðtryggður miðað við lánskjaravísitölu hjá flestum lífeyrissjóðum. Það getur ekki staðist að lánin hækki miklu meira, eins og hv. þingmaður sagði, en lífeyririnn, þau hækka bara nákvæmlega jafnmikið, hlutfallslega, hjá flestum. Það að lífeyrissjóðirnir hafi þurft að skerða lífeyri sé ástæða þess að skerða hann enn frekar er náttúrlega alveg ótrúleg röksemdafærsla.

Lífeyrisþegarnir standa frammi fyrir hækkandi vöruverði á hverjum degi, hækkandi afborgunum af lánum og lífeyririnn er verðtryggður. Það er það sem lífeyrissjóðirnir og sjóðfélagarnir gerðu ráð fyrir alla tíð. Lífeyrissjóðirnir gerðu því ráð fyrir að geta staðið við verðtryggðan lífeyri með því að fá verðtrygginguna inn. Þetta var ekkert sem þeir gerðu ekki ráð fyrir, að sjálfsögðu gerðu þeir ráð fyrir því. Þess vegna var hægt að verðtryggja lífeyrinn af því að eignir lífeyrissjóðanna voru verðtryggðar. Það var grundvallarforsendan á sínum tíma þegar ég stóð fyrir því að verðtryggja lífeyri að eignirnar væru verðtryggðar.

Ég lít því ekki á 170 milljarða verðbætur lífeyrissjóðanna sem einhvers konar aukatekjur. Það er ekkert nema uppbót á að myntin hefur rýrnað. Og lífeyrisþegarnir eru ekki síður í þörf fyrir þá peninga en aðrir þegar verðlag hækkar og lánin hækka. Það að skerða hafi þurft ýmsa lífeyrissjóði, þeir voru reyndar hækkaðir áður sumir hverjir, séu einhver rök fyrir því að skerða lífeyrinn enn frekar er náttúrlega fáránlegt.