140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

580. mál
[18:19]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Lánin hafa hækkað miðað við lífeyrisgreiðslurnar einmitt vegna þess að lífeyrisgreiðslurnar hafa verið skertar, það er það sem ég sagði. Lífeyrisgreiðslur úr flestöllum lífeyrissjóðum, ef ekki öllum, (Gripið fram í.) nema hinum opinbera hafa verið skertar vegna þess að sjóðirnir hafa ekki getað staðið undir þeim skuldbindingum þrátt fyrir verðtrygginguna. Þessi tillaga sýnir fram á það að ekki þurfi að valda lífeyrissjóðunum neinum skaða að fara út í þessa aðgerð. Þær greiðslur sem lífeyrissjóðirnir munu greiða inn í afskriftasjóð fasteignaveðlána eru það lágar og það lítill hluti af eigum þeirra að framkvæmdastjóri eins stærsta lífeyrissjóðsins hefur sagt að lífeyrissjóðirnir muni sennilega standa miklu betur að vígi ef farið verður út í þá aðgerð en ekki, vegna þess að öll sú óvissa sem uppi er með framtíð þúsunda lífeyrislánsskuldara mun lagast. Vandamálin varðandi til dæmis lánsveðin munu að mestu leyti einfaldalega hverfa og verða úr sögunni.

Þetta er hluti af því sem tillagan mun gera, hún mun laga efnahagsreikning lífeyrissjóða og fjármálastofnana til mikilla muna og eyða þeirri óvissu sem við erum enn ekki sennilega hálfnuð með að greiða úr þrátt fyrir að þrjú ár séu liðin frá hruninu. Ég leyfi mér að minna hv. þingmann á nýgenginn hæstaréttardóm varðandi gengistryggðu lánin og öll þau mál sem eftir er að afgreiða í dómskerfinu varðandi þessi mál. Við erum að horfa fram á þrjú, fjögur, fimm ár í viðbót af óvissu bara vegna dómsmála, svo ekki sé talað um óvissu vegna þeirrar fjárhagsstöðu sem heimilin eru komin í vegna hrunsins. Tillagan er viðleitni og er góð aðferð til að koma lagi á þessa hluti.