140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

580. mál
[18:25]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka jákvæðar undirtektir frá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og fagna því að menn tali með þessum hætti um málið. Þetta er í rauninni algjörlega í anda þess sem Framsóknarflokkurinn hefur meðal annars talað fyrir í nokkur ár, að fara þurfi í umtalsverða almenna leiðréttingu á skuldum heimilanna. Það hefur vafist fyrir mörgum að útfæra það nákvæmlega á blaði hvernig er hægt að gera það. Og þó að við höfum komið hér með eina leið sem okkur líst mjög vel á og við erum sannfærð um að sé vel fær er náttúrlega ekki þar með sagt að það sé eina leiðin, en þetta er að okkar mati mikilvægt innlegg inn í það plan.

Hvað varðar fjármögnun á afskriftasjóðnum er hún allítarlega útfærð. En þar sem við höfum ekki aðgang að öllum gögnum sem nauðsynleg eru, t.d. gögnum frá skattinum varðandi nákvæma stöðu á íbúðalánum, flytjum við málið sem tillögu til þingsályktunar frekar en sem frumvarp. Og að sjálfsögðu þarf að fara út í krónuútreikningana á öllum þessum tölum þegar þar að kemur.

Ég vonast til að við fáum fleiri þingmenn á þetta mál. Ég hef þegar ámálgað það við nokkra þingmenn Samfylkingar og þingmann úr Sjálfstæðisflokki. Ég hef mætt á fundi með þingmönnum og svarað öllum þeirra spurningum um málið. Ég vona að ég geti haldið áfram að gera það gagnvart þingmönnum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem fyrst svo að menn geti þá velt þessu málefnalega fyrir sér og tekið afstöðu til málsins með eða á móti því, eða hvort það sé þess virði að leggja vinnu í að fylgja því áfram.