140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

580. mál
[18:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að mínu viti er engin spurning um að það er þess virði að velta málinu áfram og fylgja því eftir. Það skiptir ekki öllu þegar við erum með tillögur í þinginu hvort einn flutningsmaður er á henni, fjórir eða sextíu. Það ber auðvitað merki um mikla samstöðu þegar 63 þingmenn eru á einni tillögu, við þekkjum svo sem eina slíka hér, það er að sjálfsögðu mjög gott.

Frú forseti. Mikilvægt er að nefndin sem fær málið til meðferðar sameinist um það að kafa ofan í málið og gera það hratt og örugglega, kasti því ekki til hliðar eða svæfi það eða hvernig sem það er nú, heldur fari ofan í málið algjörlega frá A til Ö og reyni að gera það sem allra fyrst því að mjög mikilvægt er að við náum að leiðrétta þær miklu álögur sem eru á heimilunum í landinu.

Þingmaðurinn sagði, sem er alveg hárrétt, að aðgangur að gögnum er oft erfiður. Það er mjög umhugsunarvert fyrir okkur þingmenn að vera í þeirri stöðu að leggja fram þingmál, eins og hér er verið að gera, og búið er að leggja mikla vinnu í gott mál að hafa ekki aðgang að nauðsynlegum gögnum til að geta undirbúið málið enn betur. Það er mjög mikið áhyggjuefni. Mér hefur fundist í umræðu um stöðu heimilanna og um bankana — maður hefur alltaf á tilfinningunni að verið sé að halda einhverju frá manni, það séu til fleiri gögn sem við getum notað í baráttu okkar. En tillaga þessi á að njóta allrar sanngirni í því í þeirri nefnd sem fær málið.