Bankasýsla ríkisins

Fimmtudaginn 15. mars 2012, kl. 17:05:31 (6562)


140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

Bankasýsla ríkisins.

255. mál
[17:05]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál gengur einfaldlega út á það að leggja niður Bankasýslu ríkisins og það skýrir sig sjálft. Það er hægt að ná þeim markmiðum sem eru sett með Bankasýslu ríkisins, sem eru mörg alveg ágæt eins og með faglegar ráðningar og annað slíkt, með öðrum og einfaldari og ódýrari hætti. Þessi rekstur kostar nokkur hundruð milljónir.

Það er sérstaklega hjákátlegt að hafa Bankasýslu ríkisins þegar ekki er farið eftir lögum um Bankasýslu ríkisins og ég vek athygli á því að fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra lét ekki eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum vera hjá Bankasýslunni þó svo að lög kveði á um það. Það eitt og sér ætti því að vera næg ástæða til að leggja þessa stofnun niður og þarf í rauninni ekki að hafa neitt fleiri orð um það.

Þetta mál er til komið vegna þess að hægt er að ná þessum markmiðum fram með miklu ódýrari og einfaldari hætti. Þess vegna legg ég til að þetta frumvarp verði samþykkt en í það minnsta að við vísum því til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.