Útgáfa virkjanaleyfa

Fimmtudaginn 15. mars 2012, kl. 17:42:01 (6571)


140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

útgáfa virkjanaleyfa.

491. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi samkeppnina og markaðinn á heimilisrafmagni hefur komið í ljós að rafmagn til fyrirtækja hefur aðeins hækkað um 30% frá því að af þessum aðskilnaði varð, á meðan vísitalan hefur hækkað um 61% eða 62%. Helsta ástæðan er væntanlega sú að við erum búin að vera með umframframleiðslu á rafmagni allan þennan tíma og menn hafa verið að reyna að koma því til fyrirtækjanna. En hins vegar er engin samkeppni á heimilismarkaði. Heimilin í landinu hafa því ekki notið góðs af samkeppni í þeim efnum.

Hins vegar varðandi stórfyrirtækin fór hv. varaþingmaður í Suðurkjördæmi, Birgir Þórarinsson, sem setið hefur á þingi í tvígang, og hitti menn fyrir austan. Þeir vöruðu okkur við því að fara sömu leið og Bandaríkjamenn á þessu sviði. Ég held að við eigum að læra af því, að þetta sé ekki endilega skynsamlegasta leiðin. Ég ítreka að sá arður sem heimilin og fyrirtækin í landinu hafa fengið er umtalsverður, og þá er ég ekki að tala um stóriðjuna. Við erum að tala um 2.000–2.200 milljarða. Ef við hefðum þurft að kaupa orkugjafa í olíu, og ég er bara að tala um rafmagnshlutann, erum við kannski að tala um 4.000 milljarða eða eitthvað slíkt. Ef við hefðum ekki fengið stóriðjuna inn í landið til að taka þátt í að borga niður þessar vatnsaflsvirkjanir hefði raforkuverðið til neytenda verið margfalt hærra þannig að ekki er hægt að halda því fram, eins og hv. þingmaður gerði, að heimilin og minni fyrirtækin í landinu greiði niður orkuna til stóriðjunnar, því fer fjarri. Stóriðjan hefur tekið þátt í að fjármagna og greiða (Forseti hringir.) niður virkjanirnar og Búrfellsvirkjun er búin að mala gull í 10 eða 15 ár og mun halda því (Forseti hringir.) áfram um ómunatíð, þjóðinni allri til hagsbóta.