Ný reglugerð um sorpbrennslur

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 13:40:34 (6580)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

ný reglugerð um sorpbrennslur.

[13:40]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er það ekki svo, þó að það henti ræðustíl hv. þingmanns í gífuryrðaflaumi hennar hér, að ég hafi ekki talað við heimamenn því að það hef ég gert, ég hef meðal annars átt ágæta fundi með bæði Eyjamönnum og fólki á Klaustri um þessi mál. Vestmannaeyingar voru kannski ekki svo bjartsýnir í aðdragandanum að þeirri miklu breytingu sem þeir tókust á hendur að því er varðar flokkun sorps, að það mundi ganga mjög í Eyjum, en það gekk mjög vel. Það er verulega mikið fagnaðarefni að Vestmannaeyingum hefur gengið vel að snúa við blaðinu í þeim efnum og hafa nálgast úrgangsmálin af mikilli ábyrgð.

Ég mun hér eftir sem hingað til hitta sveitarstjórnarmenn til að ræða sorpmál en eftir sem áður eru sorpmál á ábyrgð sveitarfélaganna og ég hef ekki heyrt að hv. þingmaður leggi annað til. En samráðið er fyrir hendi (Forseti hringir.) og yfirsýnin er umhverfisráðuneytisins og þess vegna erum við að gera landsáætlun.