Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 15:09:10 (6622)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[15:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina. Það er tvennt sem mig langar að spyrja hv. þingmann um. Ég sé að á fundi nefndarinnar hafa einungis komið fulltrúar frá innanríkisráðuneytinu, ekki þeir umsagnaraðilar sem sendu inn umsagnirnar heldur er vitnað til þess að farið hafi verið yfir þær og þær ræddar. Síðan fylgir með í fylgiskjali meiri hlutans nefndarálit frá fyrrverandi meiri hluta sem afgreiddi málið síðasta haust. Það kom hins vegar ekki til lokaafgreiðslu þingsins.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um eru þær fullyrðingar sem koma fram í frumvarpinu um að spara megi allt að 50% í yfirstjórn sem þýðir í raun um 10–11% af heildarútgjöldum til viðkomandi stofnana. Skoðaði hv. umhverfis- og samgöngunefnd það eitthvað sérstaklega með ráðuneytinu? Á fyrri stigum málsins, því að málið hefur komið áður inn í þingið eins og kemur greinilega fram í nefndarálitinu og búið að vinna töluvert í því, hafði ég miklar efasemdir um að þetta mundi ganga eftir og óskaði ég ítrekað eftir því að fá að sjá þau gögn sem lægju þar að baki, þ.e. sem sýndu fram á raunverulegan sparnað við að fara í þessa vegferð. Ekki voru okkur kynnt þau gögn sem lágu þar að baki heldur komu fulltrúar ráðuneytisins og sögðu að þetta væri þeirra mat, en ég og fleiri óskuðu eftir því að fá að sjá gögnin en sú varð ekki raunin. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort umhverfis- og samgöngunefnd hafi fengið að sjá þau gögn sem liggja til grundvallar því að hagræðing og sá sparnaður náist fram í því formi sem lagt er til í frumvarpinu og hvort farið hafi verið sérstaklega yfir það í meðförum umhverfis- og samgöngunefndar á þessu stigi málsins.