Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 15:18:08 (6626)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. nefndarformanns Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og andsvörum hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar fékk þetta mál betri umfjöllun á síðasta þingi en því sem nú stendur yfir og það sama má segja um nefndarstörfin. Það verður að segja að afgreiðsla hv. umhverfis- og samgöngunefndar var afar snöggsoðin hvað varðar þau tvö mál sem hér eru til umræðu, Farsýsluna og Vegagerðina. Að miklu leyti var stuðst við umfjöllun fyrri nefndar og litlu við bætt og mótar það með nokkrum hætti aðkomu okkar í minni hluta nefndarinnar. Við urðum í ákveðnum atriðum að styðjast við vinnu sem unnin var á síðasta þingi af hv. þm. Ásbirni Óttarssyni og fleirum varðandi þau sjónarmið sem fram koma í nefndaráliti, þannig að því sé til haga haldið. Þeir þættir sem þar er mest talað um voru fyrst og fremst til umræðu í nefndinni á síðasta þingi en ekki því sem nú stendur yfir. Eins og fram hefur komið gekk nefndarstarfið mjög hratt í þessum málum og ólíkt ýmsum öðrum málum sem tekin verið hafa mjög góðum og faglegum tökum af hálfu hv. umhverfis- og samgöngunefndar var þar um að ræða mjög snöggsoðna afgreiðslu.

Ég ætla að rekja í stuttu máli helstu sjónarmið sem fram koma í nefndaráliti okkar í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar en auk mín undirrita það nefndarálit hv. þingmenn Árni Johnsen og Ásmundur Einar Daðason.

Í upphafi lýsum við því sjónarmiði að við getum tekið undir afar margt í áliti meiri hlutans um þessi frumvörp. Við teljum að ákveðin hugsun um hagræðingu og sameiningu sem þarna er lagt upp með sé af hinu góða en við erum hins vegar ósammála þeirri niðurstöðu sem meiri hlutinn kemst að, að mæla með því að málið verði samþykkt að svo stöddu. Við teljum að ekki séu komin fram nægilega sterk og sannfærandi sjónarmið sem styðji það sem er meðal helstu forsendna frumvarpsins, að hagræðing og sparnaður náist fram með þessu. Við teljum að töluvert vanti upp á að þeir þættir hafi verið skoðaðir og höldum ýmsum sjónarmiðum fram í nefndaráliti okkar sem við teljum að nauðsynlegt sé að komi fram á þessum stað í umræðunni. Í þessum efnum byggir meiri hlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd eingöngu á einhliða upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu en ekki á neinni sjálfstæðri skoðun á þeim forsendum sem settar eru fram.

Ég vek athygli á því að umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er að nokkru leyti sama marki brennd. Ekki verður annað séð en þar gangi fjárlagaskrifstofan alveg einhliða út frá forsendum innanríkisráðuneytisins og af kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins að dæma virðist ekki vera lagt sjálfstætt mat á þær upplýsingar sem hér liggja til grundvallar. Má þá velta því fyrir sér til hvers umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er ef hún gerir ekki annað en að endurtaka það sem ráðuneytið, sem flytur frumvarpið, segir um kostnaðaráhrifin. En þetta var útúrdúr. Ég nefni það bara til að það komi fram að í raun og veru hefur enginn utan innanríkisráðuneytisins lagt sjálfstætt mat á þessar upplýsingar. Ég segi eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, ég hef ekki forsendur til að halda því fram að innanríkisráðuneytið hafi rangt fyrir sér en mér finnst býsna djarft hjá Alþingi að taka forsendur ráðuneytisins sem gefnar án þess að þær hafi fengið sérstaka skoðun og ganga út frá þeim án þess að reynt sé að leggja eitthvert mat á þær.

Af því að ég ræði um kostnaðarumsagnir fjárlagaskrifstofunnar má reyndar geta þess að fjárlagaskrifstofan gerir athugasemdir við að ekki liggi fyrir neinar upplýsingar um það hvar hagræðingin á að koma fram, hvernig skiptingin á að vera á milli Farsýslunnar, Vegagerðarinnar og þess háttar. Það eru atriði sem mikilvægt er að hafa í huga við þessa umræðu og er full ástæða fyrir nefndina að skoða það á milli 2. og 3. umr. Ef ráðuneytið býr yfir þessum upplýsingum finnst mér mikilvægt að við leitum leiða til að fá þær fram milli 2. og 3. umr. og leggjum sjálfstætt mat á þær vegna þess að eins og kemur fram í nefndarálitinu — ég ætla ekki að rekja það frá orði til orðs — veltum við töluvert vöngum yfir því að ekki er sjálfgefið að sameiningar stofnana eða fyrirtækja nái þeim fjárhagslegu markmiðum sem að er stefnt. Reynslan er því miður sú að það mislukkast mjög oft.

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því sem liggja í mannlega þættinum og fleiri atriðum en niðurstaðan er oftar en ekki sú að þau markmið sem að er stefnt um hagræðingu, sparnað, samlegðaráhrif og fleira þess háttar, nást ekki. Það er einmitt af þeim sökum sem við erum þeirrar skoðunar í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar að mikilvægt sé að við leggjum eitthvert mat á upplýsingarnar áður en frumvarpið verður að lögum. Það er ekki nóg að stefna að hagræðingu, það er jákvætt, það er gott að stefna að hagræðingu, en þegar við göngum út frá því að hagræðingin náist verðum við að gera það á einhverjum forsendum og við verðum að gera það á forsendum sem byggja á einhverju öðru en bara óskhyggju. Það viljum við taka fram nú við 2. umr. um málið.

Ýmsa þætti sem verður að hafa í huga, meðal annars mannlega þáttinn. Það er spurning hvernig áhrif sameiningin hefur á starfsmannahaldið, hvernig stofnanir falla saman menningarlega séð, eins og það er kallað, hvort tryggt er að lykilstarfsmenn, mannauður stofnananna, haldi áfram innan stofnana o.s.frv. Allt eru það atriði sem nauðsynlegt er að hafa í huga og ég veit að um það voru skiptar skoðanir í síðustu samgöngunefnd sem fór miklu betur yfir málið. Þess vegna finnst mér það býsna djarft hjá meiri hlutanum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd að ganga bara út frá því að þetta gangi eftir án þess að fara í sjálfstæða skoðun á þeim þætti málsins núna.

Alls ekki er hægt að ganga út frá því að sameining stofnana eða fyrirtækja skili þeirri hagræðingu sem að er stefnt. Við gerum okkur grein fyrir að óvissa er í því efni. Ef þessi frumvörp verða að lögum vonum við auðvitað að áformin gangi eftir en fyrir því er engin vissa. En við gætum hins vegar undirbyggt ákvörðun okkar töluvert betur en við höfum gert í störfum nefndarinnar og þingsins hvað þetta mál varðar fram að þessu.

Eins og fram kemur í nefndarálitinu hafa komið fram fjölmargar athugasemdir frá umsagnaraðilum, bæði á þessu þingi og því síðasta, og satt að segja finnst mér hv. meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar skauta nokkuð létt yfir það. Ég ætla að nefna þætti sem gerðar eru athugasemdir við. Í fyrsta lagi kemur fram í máli ýmissa umsagnaraðila að óvissa er um að skipulagsbreytingarnar skili þeim sparnaði sem til er ætlast, eins og ég nefndi. Einnig er á það bent að ekki sé víst að það takist að viðhalda þeirri fagmennsku og þjónustustigi á sviði samgöngumála sem þessar stofnanir búa yfir nema með auknum fjárframlögum eða hækkunum á gjaldskrám. Varað er við því að stækkun stofnana og samþætting jafnvel ólíkra stofnana geti gert það að verkum að þjónustustig versni, boðleiðir lengist og sérhæfing minnki og er rétt að geta þess að þær áhyggjur hafa sérstaklega komið fram á sviði flug- og siglingamála. Ef við tölum um flugmálin sérstaklega hefur verið lýst áhyggjum af því að hagræðingaráform sem komið hafa fram í þeim efnum geti skapað erfiðleika í sambandi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði flugmála.

Síðan hafa ýmsir umsagnaraðilar vakið athygli á því, og hv. þm. Ásbirni Óttarssyni og hv. formaður nefndarinnar nefndu það líka í umræðum áðan, að í frumvörpunum sé raun ekki gert ráð fyrir þeirri stærri hagræðingu eða samþættingu sem nefnd var í skýrslu samgönguráðherra um framtíðarskipun samgöngumála frá júní 2009. Þar koma þau sjónarmið fram. Ég lýsi eftir því að hv. umhverfis- og samgöngunefnd skoði þá þætti nánar sem hér hafa verið nefndir, einkum varðandi þær forsendur sem menn gefa sér varðandi hagræðingaráhrifin og þess háttar. Ég held, hæstv. forseti, að í ljósi þess að þessir þættir hafa ekki fengið sjálfstæða skoðun í þinginu sé rétt að málinu verði vísað aftur, nema það verði þá skoðað milli umræðna, til ríkisstjórnarinnar eða innanríkisráðuneytisins en ekki afgreitt á þessu þingi.