Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 15:52:54 (6630)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[15:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að taka þátt í umræðu um þau tvö frumvörp sem hér eru til umfjöllunar, annars vegar um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála, og hins vegar Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála. Þannig háttar til að ég hef tekið þátt í umræðum um þetta mál á fyrri stigum þegar það hefur verið til umfjöllunar í þingsal, í hv. samgöngunefnd á sínum tíma, sem ég átti sæti í, og eins í þingflokki mínum. Það er skemmst frá því að segja að ég hef miklar efasemdir um málið eins og það liggur nú fyrir. Það er ekki vegna þess að ég óttist það sem hv. ræðumaður sem talaði um hér á undan mér, einhverja sérstaka kratavæðingu eða að verið sé að veifa einhverju framan í Evrópusambandið — ég veit satt að segja ekki hvort málflutningur af því tagi hjálpi málinu í sjálfu sér.

Ég er sammála þeim meginsjónarmiðum sem lagt var af stað með þegar farið var í vinnu af þessum toga, að reyna að ná fram meiri hagræðingu í rekstri opinberra stofnana. Okkur veitir ekkert af því. Almennt má segja að stofnanir hér á landi séu litlar og veikburða og að það þurfi að styrkja þær, en það verða auðvitað líka að vera réttar efnislegar forsendur fyrir þeim ákvörðunum sem teknar eru um sameiningu stofnana og ekki síður faglegur ávinningur. Það er ekki hægt að leggja bara fjárhagslegan mælikvarða á það hvort skynsamlegt sé að sameina stofnanir eða ekki. Það verður líka að vera faglegur ávinningur. Ég tel að hann geti verið í þessu tilfelli að hluta til en ekki að öllu leyti.

Ég er mjög ósammála þeirri meginniðurstöðu sem frumvörpin byggja á, að taka Siglingastofnun með þeim hætti sem gert er og leggja hana inn í þessar nýju stofnanir. Reyndar skil ég alls ekki og get ekki fundið neitt í gögnum málsins um opinbera hlutafélagið Isavia sérstaklega. Í fljótu bragði er ekki að finna neina umfjöllun um það í nefndarálitinu eða í greinargerð með frumvarpinu hvernig eigi að fara með það fyrirtæki, það opinbera hlutafélag, og af hverju það er ekki með í öllum pakkanum eins og ég hef gerst getað skilið, því botna ég ekki í.

Ég ætla að nota tíma minn aðallega til þess að fjalla um siglingamálin og hafið.

Ég nálgast þau mál út frá þeim forsendum að talsverður eðlismunur sé á hafinu og öðrum þáttum sem þessi frumvörp lúta að, þ.e. skipulagi samgangna á landi og í lofti annars vegar og hins vegar hafinu. Ríki sem er eyland eins og okkar og byggir afkomu sína á auðlindum sjávar á allt undir því að við stöndum vel að öllum þeim málum sem varða rannsóknir og eftirlit með hafsvæðum okkar. Það hefur umfram allt verið verkefni Siglingastofnunar, Landhelgisgæslunnar og að hluta til stofnana á vegum umhverfisráðuneytisins, að því er varðar mengun sjávar, og á hendi stofnana eins og Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu.

Lengi hafa verið býsna háir múrar á milli ráðuneyta hér á landi þegar kemur að sameiningu stofnana. Menn hafa aldrei treyst sér yfir þá múra, nema kannski með örfáum undantekningum. Má nefna þegar mengunarvarnadeild Siglingastofnunar var lögð undir umhverfisráðuneytið fyrir 20 árum eða þar um bil. Þess vegna batt ég miklar vonir við það þegar ákveðið var að sameina dómsmálaráðuneytið og samgönguráðuneytið í eitt innanríkisráðuneyti að þá skapaðist tækifæri til að skoða einmitt þetta mál á nýjum forsendum. Þegar frumvarp þáverandi hæstv. samgönguráðherra, Kristjáns Möllers, náði ekki fram að ganga á þinginu hafði ég reiknað með því að við stofnun innanríkisráðuneytis yrði farið í að skoða þetta mál á nýjan leik. Ég hafði þau sjónarmið uppi og ég gat ekki betur heyrt en það væri góður vilji til að láta á það reyna og skoða á nýjan leik. Þannig var umræðan þegar málið var í þinginu. Ég fæ hins vegar ekki sé af gögnum málsins — ég hef að vísu ekki tekið þátt í starfi þeirra nefnda sem fjalla um þetta núna — að það hafi verið gert nema síður sé, heldur kemur málið meira og minna óbreytt hingað inn.

Ég ætla að leyfa mér að vísa í nokkrar umsagnir um þetta mál sem eru einmitt gagnrýnar á þennan þátt málsins.

Það er t.d. eindregið hvatt til þess í umsögn Flugmálastjórnar Íslands að fyrir liggi nákvæm greining á kostum þess að Flugmálastjórn verði lögð niður og sameinuð Farsýslunni. Þetta segir í umsögn frá 23. febrúar 2012. Ég fæ ekki séð að slík greining liggi fyrir.

Í umsögn Hafnasambands Íslands um þetta mál er sérstaklega fjallað um siglingamálin. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Af hálfu Hafnasambands Íslands er ekki lagst gegn því að stjórnsýslu á sviði samgöngumála verði komið fyrir í einni stofnun ef það leiði til hagræðingar, betri yfirsýnar um samgöngumál og markvissari stefnu við samgönguáætlun. Sú þróun er einnig víða að aðskilja stjórnsýsluverkefni frá öðrum hlutverkum einstakra stofnana, m.a. til þess að forðast hagsmunaárekstur og óskýr mörk eftirlits og framkvæmda. Því gerir hafnasambandið ekki athugasemdir við frumvarpið um Farsýslu, stjórnsýslustofnun samgöngumála.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Varðandi frumvarpið um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, þá ítrekar Hafnasamband Íslands fyrri ályktanir sínar og hafnasambandsþinga um að brýnt sé að verja þá sérþekkingu á hafnamálum sem er að finna innan veggja Siglingastofnunar. Í greinargerð með báðum framangreindum frumvörpum er þess getið að samgönguráðherra hafi skipað nefnd um framtíðarskipan stofnana í samgöngumálum. Fram kemur einnig í greinargerðum frumvarpanna að nefndin hafi skilað skýrslu sinni Framtíðarskipan stofnana samgöngumála – Greining og valkostir í lok júní 2009 þar sem kynntir voru fimm valkostir um stofnanaskipan, auk tillagna og ábendinga um meiri samhæfingu í samgöngumálum.“

Í skýrslu nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

„Mikil samlegð er milli verkefna Siglingastofnunar, Landhelgisgæslu og Fiskistofu og afmarkaðra verkefna annarra stofnana, svo sem Umhverfisstofnunar og Hafrannsóknastofnunar.“

„Það er skoðun Hafnasambands Íslands“ — segir áfram, með leyfi forseta: „að innan stofnunar hafs og stranda mundi þjónusta við hafnir og sérþekking á málefnum hafna geta verið af þeim gæðum sem verið hefur innan Siglingastofnunar. Stjórn Hafnasambands Íslands telur samhliða þessu að hagsmunum hafna og mikilvægis þeirra fyrir samgöngukerfi landsins verði ekki vel skipað í framkvæmdastofnun sem hafi vegagerð sem meginverkefni. Þau rök eru færð fyrir þessari fullyrðingu að verkefni vegagerðar annars vegar og hafntengd verkefni hins vegar eru um flest óskyld og ekki til þess fallin að eiga samleið. Í þeim efnum er bent á fyrirkomulag í nágrannalöndum Íslands þar sem víða er lögð áhersla á öfluga stofnun á sviði hafs og strandar þar sem sérþekkingu í hafnargerð, öldu- og sjómælingum, rannsóknum, mengunarvörnum, öryggismálum og almennu eftirliti á hafinu er safnað saman í öfluga einingu. Reynslan innan lands sem erlendis sýnir að mikil þörf er fyrir íslenskt samfélag að hafa örugga og trausta skipan þessara mála.“

Meginrök fyrir stofnun hafs og strandar eru eftirfarandi:

„Þjóð sem umlukin er hafi sækir stærstan hluta efnahags síns til auðlinda hafsins og treystir að mestu á aðföng og útflutning með skipum er afar mikilvægt að eiga og reka stofnun með sérþekkingu á hafi og strönd.

Ætla má að sameinuð verkefni og starfsemi stofnana, sem vinna að rannsóknum á hafinu, eftirliti nær og fjær ströndinni, bráðaaðgerðum, rekstri leiðsögu-, vöktunar-, eftirlits- og upplýsingakerfa og framkvæmdum, eigi að leiða til hagræðingar í rekstri og aukinna gæða.“

Ég er algjörlega sammála þessari niðurstöðu í áliti Hafnasambands Íslands. Ég tel að þegar þetta mál hlaut ekki brautargengi á síðasta þingi hefði innanríkisráðuneytið átt að taka það til gagngerrar skoðunar með þetta að markmiði. Ég tel að út frá sjónarmiðum umhverfis- og náttúruverndar hefði einmitt verið mikilvægt að skoða hagkvæmni þess að skipa málum hafs og stranda saman í eina stofnun.

Af því norðurslóðamál voru sérstaklega nefnd af einum ræðumanni hér áðan get ég tekið undir það að þau mál eru þess eðlis að allt sem snertir eftirlit með siglingum á hafsvæðinu kringum Ísland, með auðlindunum, björgunarmálum, leitarmálum og öðru slíku, eftirlit með hafi og veðurfarsbreytingum, lýtur að umgengni um okkar dýrmætu auðlind. Ég fæ ekki séð að það sé skynsamlegt að taka þau mál öll og setja með verkefnum í brúargerð og vegagerð í landinu. Ég óttast að hér sé á ferðinni mál sem hefur bara fengið að ganga sinn veg innan ráðuneytis, fyrst samgönguráðuneytis og síðan innanríkisráðuneytis, án þess að menn hafi í raun lagst yfir þennan þátt málsins. Því miður. Þrátt fyrir það að þetta sjónarmið hafi komið hér fram í umræðu og verið sagt að það megi að sjálfsögðu skoða er hvergi í gögnum málsins að finna neina umfjöllun um það.

Í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er birt nefndarálit meiri hluta samgöngunefndar frá síðasta þingi. Í því áliti segir, þar sem vísað er til umfjöllunar um niðurlagningu Varnarmálastofnunar, með leyfi forseta:

„Þá tekur meiri hlutinn“ — þá er vísað í meiri hluta utanríkismálanefndar — „undir með starfshópnum um möguleika á frekari endurskipulagningu og sameiningu þeirra stofnana sem heyra munu undir hið nýja innanríkisráðuneyti. Sérstaklega kemur fram sú framtíðarsýn hópsins að eftir endurskipulagningu á verkefnum Landhelgisgæslunnar, Vaktstöðvar siglinga og ríkislögreglustjóra fari undirstofnun innanríkisráðuneytisins með framkvæmd öryggismála, þar með talið þeirra sem áður voru falin Varnarmálastofnun. Í þessu sambandi telur meiri hlutinn að sérstaklega beri að meta hagkvæmni þess að samþætta eða sameina starfsemi Landhelgisgæslunnar, Siglingastofnunar og Vaktstöðvar siglinga og kanna eins og fyrr sagði möguleika á staðsetningu þessarar starfsemi, a.m.k. að hluta, á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.“

Undir þetta nefndarálit ritaði ég sem framsögumaður málsins og hv. þáverandi þingmaður í utanríkismálanefnd og núverandi hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, meðal annarra.

Ég fæ ekki skilið af hverju þetta hefur ekki verið skoðað. Í nefndaráliti núverandi meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er bara vísað í þetta álit, en þessum rökum er hvergi svarað með einu orði. Það kann vel að vera að þau séu einhvers staðar á sveimi í ráðuneytinu, en þau koma hvergi fram í gögnum málsins. Ég sakna þess mjög. Ég er ósáttur við það.

Ég vísa líka í umsagnir sem hafa komið frá Siglingastofnun sjálfri sem benda á nauðsyn þess að sameina og samþætta þau málefni sem ég hef sérstaklega gert að umtalsefni hér. Starfsmenn Siglingastofnunar hafa á starfsmannafundum ályktað um þetta efni með sama hætti.

Mér finnst ekki skynsamlegt að fara af stað í sameiningu af þeim toga að taka fyrir þrjár stofnanir þar sem bersýnilegt er að ein stofnunin telur að þeirri starfsemi sem henni er ætlað að sinna sé ekki vel fyrir komið með þeim hætti og væri hægt að gera miklu betur með annars konar sameiningu, ekki vegna þess að stofnunin sé á móti því að starfsemin sé sameinuð einhverju öðru heldur vegna hagsmuna þeirra málefna sem hún þarf að takast á við og sinna.

Þetta finnst mér sem sagt alls ekki hafa verið gert, frú forseti. Ég gagnrýni það. Eins og ég sagði hér í upphafi er ég ósáttur við að ekki hafi verið reynt að ná utan um málið með þeim hætti. Nú má vel segja að það sé hugsanlegt að gera það í framhaldinu, en finnst mönnum sennilegt að ef þessi stofnun verður til — Vegagerðin með öllum þessum þremur stofnunum saman — fari menn strax í framhaldinu að skoða hvernig megi brjóta hana upp og taka hluta af henni yfir í eitthvað annað? Það er ekki líklegt að það verði gert.

Ég tel að menn séu að missa af tækifæri til þess að taka málefni hafsins, málefni stranda, umhverfis- og náttúruverndarmál, umgengni um okkar dýrmætu auðlind í hafinu, eftirlit og björgunarmál á hafsvæðunum í kringum Ísland í einn sterkan og öflugan málaflokk undir eina öfluga og sterka stofnun sem yrði stofnun hafs og stranda. Í því felst sem sagt ekki sú afstaða að ég sé andsnúinn sameiningu stofnana per se, heldur sú sannfæring að fyrir þetta málefni, sem ég ber mjög fyrir brjósti og veit að margir þingmenn gera, sé þessi niðurstaða ekki góð. Mér finnst niðurstaðan lykta dálítið af því að vera gamaldags vega- og brúargerðartækniverkfræðilausn sem á ekki heima í umræðu um málefni hafsins, mengunarmál, náttúruverndar- og umhverfismál, eftirlits- og öryggismál á hafsvæðunum í kringum okkur.

Mér finnst ráðuneytinu hafa brugðist bogalistin. Mér finnst þeim spurningum sem þetta mál allt hefur varpað fram ekki vera svarað af hálfu nefndarinnar sem um það hefur fjallað. Ég efast ekki um að menn hafi gert það sem þeim hefur þótt rétt. Ég virði það að sjálfsögðu að menn séu annarrar skoðunar en ég hvað þetta efni varðar, en ég get ekki látið hjá líða að láta sjónarmið mín koma fram í þessu máli. Ég hef mjög sterka sannfæringu hvað þetta varðar og vonast til þess að málið gangi á nýjan leik til nefndar á milli 2. og 3. umr. til frekari umfjöllunar. Að óbreyttu get ég ekki stutt þau frumvörp sem hér liggja fyrir.