Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 17:21:17 (6640)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[17:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég undrast að mörgu leyti þessa ræðu ráðherrans. Hann talar um að ekki sé verið að loka neinum dyrum. Auðvitað er verið að loka hér öllum dyrum þegar heilu stofnanirnar eru lagðar niður eða sameinaðar öðrum stofnunum, þær tættar í sundur og ekkert hugað að innra skipulagi eða málaflokkum sem undir stofnanirnar heyra. Auðvitað er verið að skella hér fast á eftir sér. Ég vil byrja á því að benda ráðherranum á það.

Raunverulega kallaði ég eftir svörum frá ráðherranum í ræðu minni hér áðan þegar ég spurði um málefni norðurslóða og þeirrar rannsóknarvinnu sem liggur hjá Siglingastofnun, hvert þeir málaflokkar ættu að fara. Jú, jú, ráðherrann fór yfir það að þeim yrði fundinn einhver staður í framtíðinni, þetta væri bara byrjunarstig og svo ætti að sjá til, en ég spyr: Á að setja framhald skipunar þessara mála með reglugerð? Er verið að ráðherravæða hér enn eitt frumvarpið? Hvers ætlast ráðherrann til? Hvert eru þessir málaflokkar að fara? Hvert fer rannsóknarþáttur stofnunarinnar?

Mér finnst mjög einkennilegt hvernig haldið er á þessu máli. Hingað upp hafa komið þingmenn og lýst áhyggjum af því, meira að segja skoðanabróðir ráðherrans í pólitík, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, hefur deilt þessum sömu áhyggjum og við í stjórnarandstöðunni.

Ég spyr á ný: Hvað verður um þá starfsemi Siglingastofnunar sem ekki er kveðið á um í frumvarpi þessu? Er verið að setja hana inn í utanríkisráðuneytið eins og heyrst hefur á götum úti eða hvar lendir sá þáttur stofnunarinnar?