140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:15]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hennar, en ég er ekki viss um að ég hafi skilið það fullkomlega. Ég skil það þannig að ekki sé hægt að senda fjárlög í þjóðaratkvæðagreiðslu og fjárhagslegar skuldbindingar. Eins og ég skil málið hefði ekki verið hægt að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samninginn vegna þess að hann er fjárhagsleg skuldbinding fyrir ríkið.

Ég verð að viðurkenna það að ég er ekki jafn vel lesinn í málinu og hv. þingmaður og ég var ekki búinn að gera mér grein fyrir því að réttur forsetans til að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur ekkert breyst. Hann getur áfram vísað fjárhagslegum skuldbindingum í þjóðaratkvæði. Þetta á þá við um þingið. Gæti hv. þingmaður verið örlítið skýrari þannig að ég væri með þetta alveg á hreinu?