140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði einmitt mikinn áhuga á því fyrir síðustu kosningar að við næðum þó ekki væri nema samkomulagi um þetta. Því miður tókst það ekki. Þetta er eitthvað sem hv. þingmaður verður að taka upp við aðra þingmenn sem standa honum nær innan þingflokks sjálfstæðismanna varðandi þá andstöðu sem þar kom fram, um að gera þó ekki væri nema þessa breytingu.

Við stöndum frammi fyrir því að stjórnarskráin er eins og hún er og þar kemur fram hvernig eigi að breyta henni. Þetta eru ákvarðanir sem forverar okkar tóku. Við þurfum að vinna innan þess ramma í framhaldinu, eins og ég benti á, þegar við erum búin að gera þær breytingar sem við teljum skynsamlegar og ég tel eins og ég hef sagt hér að þetta sé skynsamleg tillaga, að tryggja að hægt sé að fara með stjórnarskrárbreytingar í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að alþingiskosningar séu á milli. Við hefðum átt að samþykkja þetta fyrir síðustu kosningar en það tókst ekki þannig að við verðum bara að vinna innan þessa ramma og það hafa menn verið að gera. Og það hefur mér þótt mjög miður að við skulum ekki hafa getað einbeitt okkur meira að efnisatriðum málsins í staðinn fyrir að festast allt of mikið í formsatriðunum, að horfa á hvað við viljum gera og hvernig við viljum hafa grunnlög landsins.