140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:45]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, hér er verið að víkka mjög út það sem er í tillögum stjórnlagaráðs. Þar er tekið alveg nákvæmlega fram að ekki sé átt við náttúruauðlindir í einkaréttareign þannig að ég get ekki annað en tekið undir þá túlkun þingmannsins að mér finnst eins og það sé verið að búa til óútfylltan tékka fyrir ríkisstjórnina með það að geta gengið lengra í þjóðnýtingaráformum sínum.

Mikil vinna fór fram í iðnaðarnefnd heitinni á sínum tíma þar sem greinilegt var að vinstri menn höfðu mjög mikinn áhuga á að taka öll vatnsréttindi undir ríkið. Samkvæmt þessu gæti ríkið með réttu farið fram, á grunni þess að meiri hlutinn mundi samþykkja að náttúruauðlindir ættu að vera í þjóðareign, og sagt: Hér er þjóðin búin að segja sitt álit á hlutunum. Svo gæti hún tekið vatnsréttindin úr einkaréttarlegri eign og yfir í þjóðareign sem mundi einfaldlega þýða eignaupptöku hjá fólki sem eflaust fengi greiddar skaðabætur fyrir það. Það er ekki hægt að taka eignir bótalaust af fólki vegna eignarréttarverndar í stjórnarskrá.

Svo hefur maður oft heyrt þingmenn tala um að einkaeignarrétturinn sé ofmetinn. Kannski verður hann bara afnuminn í leiðinni.