140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er alveg einstaklega áhugaverð umræða vegna þess að fullar skaðabætur skulu koma fyrir gangi ríkið fram með lagasetningu um að taka einkaeignarréttindi af fólki sem á þau svo sannarlega. Þar eru náttúruauðlindirnar líka.

Þingmaðurinn ræddi aðeins loftslagskvótann sem er dæmi um nýja auðlind sem Íslendingum áskotnaðist, svo og makríllinn. Hann skal líka hafður hér inni því að allt í einu synti nýr fiskur í landhelgi okkar. Þá var ríkisstjórnin ekki lengi að afsala sér íslenska ákvæðinu til Evrópusambandsins. Það var metið upp á 15 milljarða kr. árið 2007. Afsalið var einungis til að geta haldið áfram með umsóknina hjá Evrópusambandinu. Ég spyr mig því og spyr þingmanninn í leiðinni: Getur verið að þetta sé á einhvern hátt tengt þarna inn, að það sé verið að tefja þetta með þessari þingsályktunartillögu því að (Forseti hringir.) nú eru allar náttúruauðlindir okkar óvarðar gagnvart Evrópusambandinu og falla þar með til Evrópusambandsins um leið og við göngum inn?