140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú get ég kannski komið aðeins inn í svarið við fyrri spurningu hjá þingmanninum varðandi það. Ég hef einnig spurt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þá sérfræðinga sem þangað hafa komið vegna opins ákvæðis um spurninguna sem sett er fram í 1. tölulið, þar sem er spurt að því hvort heimilt sé að leggja fram frumvarp sem á eftir að taka breytingum. Ég hef spurt sérfræðinga hvort þeir viti til þess í öðrum löndum þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur fari fram að það fari plagg í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ekki endanlegt af hálfu stjórnvalda. Það er ekki hægt að nefna eitt einasta ríki og ekki eina einustu þjóðaratkvæðagreiðslu sem vitað er til þess að þjóðaratkvæðagreiðsla sé um plagg sem er ekki endanlegt.

Hvaða lög er verið að vísa í og alþjóðasamninga? Það læðist náttúrlega að manni sá grunur að þarna liggi undir steini ESB-umsóknin varðandi alþjóðasamninga. Svo er það náttúrlega ýmislegt í tillögum stjórnlagaráðs sem skarast líka á við almenn lög sem eru í gildi í landinu.