140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var farin að tala um mannréttindakafla stjórnarskrárinnar áðan í fyrra andsvari og ætla að halda því áfram vegna þess að þingmaðurinn spyr hvort það sé ekki erfitt að dæma eftir slíku skrúðmælgi sem lagt er til í tillögum stjórnlagaráðs. Auðvitað er það ekki hægt þegar á að tryggja öllum einhver ákveðin réttindi. Það er ekki hægt. Ég minni á að mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur inn í íslensku stjórnarskrána 1995. Á mannréttindakaflann er komin mjög góð dómaframkvæmd og mannréttindi á Íslandi eru mjög skýr þannig að nú er sá tími yfirstaðinn að fara þurfi að dæma aftur sömu mál nema þessu verði breytt til baka. Þá tekur við 10–15 ára dómaframkvæmd til að skýra það hvað Alþingi á við með þessu ef þetta verður að lögum.

Varðandi Lögréttu ætla ég að minna þingmanninn á að ég er ekki sammála tillögu stjórnlagaráðs um Lögréttu því ég er fyrst og fremst talsmaður þess að hér verði sett á stofn lagaskrifstofa Alþingis sem hefur það hlutverk að lesa yfir lagafrumvörp og aðrar tillögur sem frá þinginu koma til að fækka dómsmálum og vanda lagasetningu.