140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom inn á þetta í máli mínu varðandi náttúruauðlindirnar og einmitt þá staðreynd að í tillögum stjórnlagaráðs og tillögunum sem fyrir liggja er einmitt fjallað um það að náttúruauðlindir séu í þjóðareign að undanskildum þeim sem séu í einkaeign. Þá hlýtur maður að velta því fyrir sér að það eru tveir möguleikar sem þarna búa að baki. Annaðhvort er ætlunin eða verið er að kanna möguleikana á því að ganga lengra en það, að allar náttúruauðlindir, ekki að undanskildum þeim sem eru í einkaeign, verði þjóðareign eins og ég kom inn á í máli mínu og fleiri hafa gert, eða hitt að þetta er hroðvirknislega unnið, illa unnið, illa orðað. Það er mjög alvarlegt að við skulum vera að ræða hér stjórnarskrá landsins, þetta mikilvæga plagg, grundvallarplagg sem allt byggir á, með þessum hætti, með svona hroðvirknislegum (Forseti hringir.) hætti og á þeim nótum og svo illa unnið eins og fram hefur komið hér í umræðunni í dag.