140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd. Hér er ekki um mjög efnismikla greinargerð að ræða og hún svarar í raun ekki þeim spurningum sem kvikna í huga mér við lestur málsins, en þær varða náttúrlega í fyrsta lagi efni málsins sem slíkt, í öðru lagi spurningarnar, hvernig þær eru settar fram og hvernig þær hafa verið unnar og í þriðja lagi þá hugmyndafræði að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram samhliða forsetakosningum.

Af því að tíminn sem ég hef er mjög stuttur ætla ég að nýta mér hann til að fara í efni spurninganna sjálfra.

Það er frekar flókið að skrifa góðar spurningar og það er mjög nauðsynlegt þegar maður leggur í þá vinnu, hvort sem maður er að vinna rannsóknarverkefni í háskóla eða vinna spurningakönnun eins og hér er verið að gera þar sem varpa á spurningum til heillar þjóðar, að átta sig í upphafi á því um hvað skuli spurt. Það er meginregla númer eitt að spurningarnar séu það skýrar að þeir sem eiga að svara þeim nái að skilja þær og skilja þær á sama hátt og sá sem spyr spurninganna. Þetta er eitthvað sem vefst fyrir öllum sem gera svona spurningalista og spurningakannanir og margir fræðimenn hafa fjallað um þetta stóra og mikla viðfangsefni.

Mig langar, frú forseti, að vitna hér í grein eða 18. kafla í Handbók í aðferðafræði og rannsóknum í heilbrigðisvísindum, sem gefin var út af Háskólanum á Akureyri árið 2003, en þar skrifar Þorlákur Karlsson 18. kafla um spurningakannanir, uppbyggingu þeirra, orðalag og hættur. Þetta er mjög greinargóð grein hjá Þorláki og mikilvægt að allir sem skrifa spurningar sem spyrja á heila þjóð að kynni sér þessi helstu viðfangsefni sem allir sem á undan þeim hafa reynt að skrifa slíkar spurningakannanir eða minni kannanir um viðfangsefni hafa þurft að glíma við. Markmiðið í spurningakönnunum, þjóðaratkvæðagreiðslu sem og öðrum könnunum, er að fá alla þátttakendur til að svara öllum spurningum og að allir skilji spurningarnar á sama hátt. Þetta er svona grundvallaratriði. Síðan kemur fram hjá Þorláki að spurningalisti sé ekkert annað en mælitæki sem verður að vera áreiðanlegt og réttmætt. Til að svo megi verða er til dæmis grunnatriði að fólk skilji nákvæmlega hvað meint er með hverri spurningu.

Frú forseti. Ég óska eftir heimild til að vitna hér beint í greinina og er að því:

„Þegar svarendur hafa mismunandi skilning á tiltekinni spurningu er mælitækið orðið ónákvæmt og villa slæðist í niðurstöður.“

Þannig að þetta er gríðarlega mikilvægt.

Við lestur þeirra tillagna sem hér liggja fyrir — og ef maður vindur sér beint í 1. tölulið er spurt: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði náttúruauðlindir lýstar þjóðareign?“ — þá vaknar auðvitað spurningin hvað er náttúruauðlind og hvað er þjóðareign? Ég er ekki viss um að allir Íslendingar séu sammála um hvað þetta tvennt þýðir. Þess vegna er spurningin í rauninni ekki nógu skýr og svörin sem við munum fá úr slíkri spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslu munu verða út og suður vegna þess að ég skil þessa spurningu á einn hátt; hv. þingmaður Pétur H. Blöndal skilur hana eflaust á allt annan hátt o.s.frv.

Eftirfarandi spurning er oft tekin sem dæmi þegar er verið að kenna uppi í Háskóla Íslands til dæmis hvernig gera eigi góða spurningu: „Borðar þú morgunmat?“ Þessi spurning er tiltölulega einföld en getur misskilist á margan hátt, í fyrsta lagi vegna þess að hvað er morgunmatur og á hvaða tíma dagsins telur fólk sig vera að borða morgunmat? Ef menn vakna klukkan 12 og fá sér kaffi og sígó, er það þá morgunmatur? Þetta er svona hin klassíska spurning sem er notuð til þess að fá menn til að hugsa: Já, ég þarf nú eitthvað að skýra þessa spurningu mína betur.

Mér finnst spurningin í 1. tölulið klassísk spurning sem fellur í þessa gryfju, sömu gryfju og spurningin um morgunmatinn.

Í öðru lagi er spurt: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er?“ Þarna rekum við okkur á annað vandamál. Þarna ætlast spyrjandinn til þess að allir sem mæta í þjóðaratkvæðagreiðsluna viti hvernig núverandi ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga í stjórnarskrá Íslands er. Ég tók mig til og fletti því upp í stjórnarskránni áður en ég kom hér í stólinn til að rifja það upp nákvæmlega hvernig orðalagið er en þó að maður hafi oft lesið þetta kann maður þetta ekki utan að. Ég er nokkuð viss um að meginþorri þjóðarinnar kann þetta ekki utan að. Þegar fólk sem er að svara spurningakönnun eða spurningalista fær spurningu sem því finnst svolítið flókin og kannski benda til þess að það kunni ekki efnið nógu vel fer fólk svolítið í baklás. Það er líka þekkt úr fræðunum.

Þannig að spurningu tvö þarf að mínu mati annaðhvort að einfalda og spyrja: Vilt þú að það sé þjóðkirkja á Íslandi? eða ef verið er að vísa í núverandi ákvæði að tiltaka hvernig það ákvæði er. Þá er spurningin hins vegar orðin löng og talsvert flókin og það er kannski ekki snjallt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í þriðja lagi er spurt: „Viltu þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?“ Þarna dettum við aftur í morgunmatarpyttinn varðandi persónukjör, af því að menn skilja það kannski á ólíkan hátt hvað átt er við. Síðan er afar óljóst hvað átt er við í spurningunni með orðunum „í meira mæli“. Hvað þýðir það? Hvað í ósköpunum þýðir það? Þýðir það alltaf eða þýðir það stundum? Þýðir þetta að maður geti valið það svona ár frá ári hvort maður ætlar að beita þessu eða ekki? Eða er þetta bara svona í Rangárþingi eystra en ekki í Rangárþingi ytra í sveitarstjórnarkosningum? Hvað er átt við? Ég sé fyrir mér að ef maður fengi svona spurningakönnun yrði maður hálfhissa, maður mundi ekki skilja hver tilgangurinn væri með slíkri spurningu.

Í fjórða lagi er spurt: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“ Mér þykir þetta talsvert flókið orðalag um efni sem ætti að vera hægt að setja fram á einfaldari hátt án þess að ég taki efnislega afstöðu til þessarar spurningar per se. Þetta er texti sem þarf að einfalda ef menn ætla sér að spyrja um þetta.

Í fimmta lagi er spurt: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? ef já, hve hátt finnst þér að þetta hlutfall ætti að vera?“ Þarna er eiginlega tvennt sem er að. Í fyrsta lagi er verið að spyrja um tvennt í einu. Fræðin segja okkur að í spurningu sem þessari eigi að skipta þessu í tvennt, menn klára fyrst hvort þeir segi já eða nei áður en farið er að blanda þessu saman í einn graut. Þannig að þeir sem ætla að segja nei, mér finnst ekki að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, þurfi ekki að svara næstu spurningu. Þannig ætti þetta að vera.

Í seinni hlutanum af spurningunni: „ef já, hve hátt finnst þér þetta hlutfall ætti að vera?“ eru bara gefnir upp þrír valmöguleikar. Hvað ef meginþorri þjóðarinnar mætir á kjörstað og segir að honum finnist að það eigi að vera inni ákvæði um að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef meiri hluta þessara kjósenda finnst að prósentan eigi að vera 50%, hvað eiga kjósendur þá að gera? Af hverju er kvarðinn svona þröngur? Hver er tilgangurinn með því? Ég skil ekki upp né niður í þessari hugsun hjá þeim sem hefur sett saman þennan spurningalista vegna þess að það er líka kennt í fræðunum að sá sem er að svara spurningum verður að skilja út á hvað kvarðinn gengur, hann þarf að vera jafn, þ.e. það þarf að vera jafnt bil á milli þeirra kosta sem svarandinn hefur til þess að láta skoðun sína koma fram.

Ég vil meina að hefði sá sem skrifaði þennan spurningalista verið að taka próf í aðferðafræði í félagsvísindadeild Háskóla Íslands hefði hann ekki fengið neitt sérstaklega háa einkunn. Ég hef vissar áhyggjur af því. Ég mæli því með að þetta verði unnið aðeins betur ef menn ætla að fara í þetta.

Þá komum við að því sem er fyrsti liður á spurningalistanum. Þar er ætlunin að spyrja í grófum dráttum hvort menn vilji að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Þetta er afskaplega flókið og langt orðalag og ekki skýrir valmöguleikar. Meginreglan á að vera sú að menn fái spurningar þar sem svarið er já eða nei. Það ætti að vera grundvallarstefið í þessari meginspurningu. Hins vegar eru hér slíkar (Forseti hringir.) langlokusetningar að maður rétt (Forseti hringir.) nær að lesa sig í gegnum þær.

Frú forseti. Ég næ ekki að klára mál mitt og óska eftir að (Forseti hringir.) verða sett aftur á mælendaskrá.