140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann um fyrstu spurninguna í 2. lið um að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign. Nú stendur í tillögum stjórnlagaráðs að náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeign skuli lýstar þjóðareign. Er þetta merki um hroðvirknisleg vinnubrögð og allt of mikinn hraða eða er virkilega verið að víkka þetta út? Er meiningin að spyrja þjóðina að því hvort allar náttúruauðlindir, bæði í einkaeign og opinberri eign, eigi að vera þjóðareign? Er í rauninni verið að víkka þetta það mikið út að við verðum komin út á mjög hættulega braut með það að nánast allar auðlindir og eignir verði þjóðareign?