140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa túlkun. Þetta sýnir nákvæmlega í hvaða stöðu málið er, hvað málið er illa hugsað, hvað málið er illa rætt og hve fáir hafa verið fengnir að því að semja þessa þingsályktunartillögu. Svo á að koma með þetta inn í þingið á þriðjudegi, byrja að ræða þetta í dag og það þarf að vera búið að afgreiða þetta til nefndarinnar, út úr nefndinni og inn í þingið aftur og samþykkja þetta við atkvæðagreiðslu fyrir kl. 12 á miðnætti næstkomandi fimmtudag. Þetta er ekki boðlegt, frú forseti, og þetta sýnir að ríkisstjórnin lítur niður á löggjafann.

Ef þetta á að vera svona áfram, að þessi óvönduðu mál komi frá ríkisstjórnarflokkunum, þá fjarar sjálfkrafa undan löggjafarvaldinu sjálfu. Enda er það lagt til í tillögu stjórnlagaráðs sem ríkisstjórnin þykist styðja að framselja eigi stjórnskipunarvaldið til venjulegs lagasetningarvalds. Svo er lagasetningarvaldið sett í reglugerðarákvæði inn í Stjórnarráðið á ný til embættismanna. Þetta sýnir þann kratisma sem tröllríður öllu hjá þeim vinstri flokkum sem eru við völd. Þeir hafa eitt markmið: Að hrinda því góða kerfi sem íslenskt samfélag hefur byggst á síðastliðin ár.

Ég er kannski ekki beint með spurningu til þingmannsins, jú það er kannski spurningin, af því að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur setið svo lengi á þingi: Hvað finnst þingmanninum um það að þjóðaratkvæðagreiðslan, spurning eitt, gangi út á það að Alþingi sé að spyrja þjóðina hvort leggja megi fram frumvarp á Alþingi. Er þetta ekki alveg galið?