140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ríkisstjórn er ekki einungis að sýna Alþingi lítilsvirðingu, með öllu ferlinu og öllum mistökunum og öllu ruglinu og verkstjórninni sem er mjög slæm, heldur er hún alveg sérstaklega að sýna stjórnarskránni lítilsvirðingu, (VigH: Já.) stjórnarskránni sem á að vera undirstaða undir allt þjóðlífið.

Ég skil ekki í hv. þingmönnum Hreyfingarinnar að ljá máls á vinnubrögðum af þessu tagi. Ég hélt að þeir vildu fá góða umræðu um stjórnarskrá og vildu fá nýja og góða stjórnarskrá sem væri undirstaða breytinga á Íslandi. En það sem við erum að upplifa hérna er að kl. hálfellefu er verið að ræða það að senda þessa stjórnarskrá óunna, ekkert efnislega rædda, hráa — henda henni fyrir þjóðina til atkvæðagreiðslu. Viltu styðja þetta eða ekki? Þetta eru náttúrlega, finnst mér, vinnubrögð sem ganga bara ekki upp.

Þar að auki eru það samkvæmt stjórnarskrá þingmenn sem leggja fram frumvarp á Alþingi (VigH: Rétt.) en ekki niðurstaða einhverrar þjóðaratkvæðagreiðslu.