140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sumir segja að sé afleiðing lýðræðis að menn beiti lýðskrumi, menn lofi upp í ermina á sér, menn lofi einhverju fallegu og fái þá fylgi. Eitt af þessum loforðum er að koma með nýja stjórnarskrá sem á að laga allt, annað er loforð Samfylkingarinnar um að fara inn í Evrópusambandið og þá bara verði alltaf gott veður, verðtrygging hverfi, verðlag verði þægilegt og hitastigið hækki — það gerir það nú sennilega hvort sem er. Menn eru virkilega að lofa því að vöruverð lækki og ég veit ekki hvað og hvað ef við göngum inn í Evrópusambandið, það er ótrúlegt að heyra þau loforð. Mér finnst þetta allt bera vott um lýðskrum.

Ég hef lagt fram hugmyndir að mjög byltingarkenndum breytingum á stjórnarskránni en ég vil ekki að það verði samþykkt órætt. Ég vil að menn ræði í hörgul þær breytingar sem ég tel að þurfi að gera. Ég mundi vilja að við tækjum okkur svo sem eins og fjögur, fimm ár í þær breytingar, frestum því jafnvel um einhver ár meðan við erum að koma heimilunum í gang og fyrirtækjunum og förum síðan í gegnum, og notum þá vinnu sem búið er að vinna, þær breytingar á stjórnarskránni sem eru þannig að við kollvörpum ekki öllu kerfinu og búum til félagslegt óöryggi, réttarfarslegt óöryggi fyrir heimilin til viðbótar við óöryggi vegna kreppunnar.

Miklar breytingar á stjórnarskrá þýða að allir hæstaréttardómar eru ógildir hvað varðar túlkun á stjórnarskránni. Það fer allt í óöryggi ef við breytum stjórnarskránni svona mikið.