140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í 111. gr. í tillögum stjórnlagaráðs er talað um framsal ríkisvalds. Ekki er gerð tilraun til þess í þeirri þingsályktunartillögu sem hér um ræðir að spyrja einhverra spurninga varðandi framsal ríkisvalds þannig að sú skoðanakönnun sem á að gera á ekki að taka á svo stóru máli sem það er.

Nú er búið að kynna eða alla vega nefna breytingartillögu, sem verður lögð hér fram samhliða, er lýtur að atkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina að Evrópusambandinu. Nú telja sumir að við aðild að Evrópusambandinu, sem við að sjálfsögðu vonum öll að verði aldrei, sé um að ræða framsal valds, framsal ríkisvalds. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skoðun á þessari grein, hvort þessi grein feli það í sér að framsal valds, t.d. í viðræðum líkt og eiga sér stað núna við Evrópusambandið, geti fallið undir þessa grein sem er verið að opna þarna.

Ég vil benda á, sem mér finnst mjög undarlegt, að í greininni stendur að framsal ríkisvalds skuli „ávallt vera afturkræft“, sem er að sjálfsögðu mjög falleg hugsun. Síðan er hreinlega í skýringu með greininni viðurkennt að stjórnlagaráð hafi gefist upp á að útfæra það hvernig í ósköpunum sú framkvæmd eigi að vera þegar og ef Íslendingar vilja afturkalla slíka ákvörðun. Því er bara vísað til Alþingis að ákveða það eða koma með reglur um hvernig það er gert. Það er reyndar víða í þessum tillögum vísað til Alþingis.

Ég hef hug á að heyra svarið því að ég sakna þess úr umræðunni hér í dag. Menn hafa lítið gefið gaum 111. gr. um framsal ríkisvalds.