140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að um þessa grein og reyndar svo margar aðrar hefur farið fram mjög takmörkuð umræða. Það er ekki bara 111. gr., það eru ýmsar aðrar greinar í þessum tillögum sem kalla á ítarlega umræðu sem hefur enn ekki farið fram. Margir hv. þingmenn hafa einmitt gert miklar athugasemdir við það.

Ég tek undir með hv. þingmanni að sú setning sem er í 111. gr., með leyfi forseta: „Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft“ — er áhugaverð nálgun á þessu viðfangsefni. Það getur t.d. verið, þó að menn hafi sett þetta upp með þessum hætti, býsna snúið í það minnsta að standa að slíkri aðgerð ef á annað borð er búið að framselja valdið til yfirþjóðlegra stofnana eins og Evrópusambandsins. Það kann að vera handleggur að snúa slíku við.

Hvað varðar spurningarnar sem eru í skjalinu og þær hugmyndir sem hafa komið fram meðal annars um að spyrja um Evrópusambandsaðildarumsóknina held ég að það sé alveg þess virði að við ræðum það hér, gefum okkur tíma í að velta því fyrir okkur hvort skynsamlegt sé að bæta þeirri spurningu við. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég hafi í engu breytt þeirri afstöðu sem ég hafði sumarið 2009, að ef á annað borð ætti að fara í slíkan leiðangur yrði að vera mjög breið pólitísk samstaða um að gera slíkt. Það liggur fyrir að það var ekki í þinginu og ríkisstjórnin var algjörlega klofin í málinu. Þess vegna hefði verið skynsamlegt þá og er enn að leita til þjóðarinnar um það hvort hún vilji að þessum samningum verði haldið áfram og þeir kláraðir. Ef svarið er nei er eins gott að það komi strax fram vegna þess að það er kurteisismál gagnvart okkar viðsemjendum að við séum ekki að gera narr og bjölluat (Forseti hringir.) með aðildarumsókn sem aldrei getur orðið að aðild fyrir Ísland. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)