140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að það var gott að hv. þingmaður lagði í þá vinnu að leggja fram þessa breytingartillögu sjálf. Ég veit ekki hvernig þessum hópi þingmanna hefði tekist að klúðra slíkri spurningu ef það verkefni hefði verið lagt í hendur þeim þingmönnum. Það hefði út af fyrir sig verið gaman að fylgjast með viðureigninni þegar reynt væri að berja saman þessa spurningu um afstöðuna til Evrópusambandsins. Einhvern veginn hefði það örugglega forklúðrast miðað við það sem maður hefur séð í þessu plaggi.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni, ég nefndi það hér áðan sjálfur, að það sem er athyglisvert við þessar spurningar er ekki bara þær spurningar sem þarna eru heldur líka að átta sig á því hvaða spurningar eru ekki þarna. Í ljósi allrar umræðunnar sem hefur verið um árabil um stöðu forsetaembættisins hefði verið fróðlegt að varpa slíkum spurningum fram til þjóðarinnar til úrlausnar á því deiluefni öllu saman. Það er hins vegar vitað að það er gríðarlega viðkvæmt mál í stjórnarmeirihlutanum. Það er nánast eldfimt að nefna forsetaembættið sjálft, ég tala nú ekki um þegar forseti lýðveldisins er nefndur á nafn, Ólafur Ragnar Grímsson, þá er ekki von á góðu.

Það er ljóst mál að eftir ræðu forseta Íslands 1. október sl. þar sem hann túlkaði niðurstöðu stjórnlagaráðsins um stöðu forsetaembættisins (Utanrrh.: Réttilega.) — réttilega, segir hæstv. utanríkisráðherra — þá voru viðbrögðin þannig úr stjórnarliðinu, greinilega ekki frá hæstv. utanríkisráðherra þó, að ekki væri nokkur von til að menn færu að kalla eftir því meðal þjóðarinnar hver staða forseta Íslands og forsetaembættisins ætti að vera. Það er ástæðan fyrir fjarvist þeirrar spurningar frá þeim spurningavagni sem meiri hluti (Forseti hringir.) þessarar nefndar hefur lagt á borð okkar þingmanna.