140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugaverð ábending sem hv. þingmaður kemur með. Við getum sagt sem svo að út frá sjónarhóli núverandi stjórnarandstöðu sé þetta kannski tímabundið vandamál og muni leysast eftir um það bil 300–400 daga. Þetta mun hins vegar verða varanlegt framtíðarvandamál þeirra sem nú sitja í ríkisstjórn og þurfa einmitt að standa frammi fyrir því að vera í veikri stjórnarandstöðu út af því ákvæði sem verið er að boða í nýrri stjórnarskrá.

Ég vil bara vekja athygli hæstv. utanríkisráðherra, sem situr hérna, á því að kannski sé tilefni til þess að taka þetta upp á ríkisstjórnarfundi vegna þess að fram undan er sú staða sem ráðherrarnir eru í núna, að þeir muni innan tíðar vera í stjórnarandstöðu sem hefur verið veikt með þessum hætti. (Gripið fram í.) Þess vegna er ástæða til þess og mjög gott að hæstv. utanríkisráðherra sé einmitt hér í húsi til að koma þessum málum til skila við ríkisstjórnarborðið þannig að menn geti strax farið að bregðast við og undirbúa sig því að 300–400 dagar eru fljótir að líða þó að þeir séu kannski langir og erfiðir fyrir ríkisstjórnina eins og allir vita. (Utanrrh.: … fjögur ár …)

Hins vegar, virðulegi forseti, vil ég að lokum segja þetta: Ég hefði líka talið að í þessum spurningum hefði átt að spyrja um eitt ákvæði sem er í tillögum stjórnlagaráðsins og felur í sér að þjóðin geti ekki krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál sem lúta að alþjóðasamningum. Þetta ákvæði hefði til dæmis komið í veg fyrir að hægt væri að bera upp Icesave-málið nema með fulltingi forsetans. Það er dálítið sérkennilegt að einmitt þeir hv. þingmenn sem bera fram þessar spurningar hérna skuli ekki hafa tekið það upp. Sérstaklega vil ég í því sambandi nefna Hreyfinguna sem þykist alltaf vera mjög áhugasöm um lýðræði, svona þegar það hentar, en er það ekki þegar til stykkisins kemur eins og við sjáum einmitt á þeim tillögum sem hún stendur að núna. Það verður fróðlegt að vita hvort (Forseti hringir.) þingmenn Hreyfingarinnar muni ekki gera breytingartillögu ef þau meina eitthvað með þessu.