140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[00:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt að fundurinn sem ég vísaði til með stjórnlagaráðinu var ekki fundur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, en ég sagði að þar hefði meðal annars verið rætt um þær spurningar sem hugsanlega mætti spyrja. Stjórnlagaráðið var ekki að ákveða þar eitt eða neitt, við vorum að ræða saman. Þessar tillögur að spurningum hafa verið lagðar fram í nefndinni og þar hefur ekki verið áhugi á að bæta neinu við. (Gripið fram í: Ó, jú.) Það hefur aldrei verið borið fram. (Gripið fram í: Ég hef borið fram.) Það hefur ekki verið borið fram. (Gripið fram í.) Það er breytingartillaga sem verður tekin fyrir á fundinum á morgun.

Það er náttúrlega ekki hægt að þingmenn beri annað eins og þvílíkt á borð eins og þingmenn gera hérna núna. (Gripið fram í.) En eins og hv. þm. Birgir Ármannsson sagði þá ætla ég ekki að elta ólar við allt sem hér er sagt. Ég segi bara enn og aftur: Ég hlakka til fundarins þegar þingmenn í minni hluta koma með þær tillögur sem þeir vilja hafa með í þeirri atrennu sem við erum að fara í til að biðja þjóðina um upplýsingar um hvað hún vilji hafa í stjórnarskrá sem er lög hennar og ekki bara hv. þingmanna.