140. löggjafarþing — 78. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:34]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það var svo sannarlega uppnám í þingsölum í gær og vegna þeirra orða sem þar féllu og sömuleiðis í fjölmiðlum í morgun bað ég upplýsingaþjónustu Alþingis að sækja fyrir mig gögn um hversu oft atkvæðagreiðslur hafa verið þegar fyrri umr. um þingsályktunartillögur lýkur.

Ákvæði þingskapa um að ekki þurfi atkvæðagreiðslu fyrir vísun til nefndar var breytt árið 2007. Síðan þá hefur einungis verið atkvæðagreiðsla um að vísa til nefndar í tvö skipti og í bæði skipti var um lagafrumvarp að ræða. 400 þingsályktunartillögur hafa farið í gegnum sex síðustu þing á Alþingi og aldrei nokkurn tíma hafa verið greidd atkvæði að lokinni fyrri umr.

Klækjabrögð sem stunduð voru hér í gær til að hindra að þetta mál kæmist til nefndar voru með hreinum eindæmum eins og þessi gögn sýna og eru ekki algeng í þessum þingsal heldur þvert á móti og eru í raun ömurlegur vitnisburður um þau klækjastjórnmál sem stunduð eru hér af ákveðnum flokkum, því miður.