140. löggjafarþing — 78. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við munum örugglega fá ýmis tækifæri til að ræða atburði gærkvöldsins, hvað var sagt og hvað var ekki sagt, bæði þá og í morgun. Það er hins vegar alveg ljóst að það verður að halda því til haga að það var ákvörðun meiri hlutans að reyna atkvæðagreiðslu í gærkvöldi þrátt fyrir að hafa verið margítrekað bent á að hægt væri að halda þá atkvæðagreiðslu í dag sem að sjálfsögðu varð raunin. Við skulum halda því til haga.

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að vekja athygli á því að ég held að það sé óskynsamlegt að vísa þessu máli til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég held að nefndin sé ófær um að halda málinu áfram. Ég legg því til að allsherjar- og menntamálanefnd fái málið til meðferðar og klári það. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er ófær um það.