140. löggjafarþing — 78. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:40]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Mér finnst eðlileg þingleg afgreiðsla að tillaga um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs fái að fara til nefndar, að sjálfsögðu, og styð það þó að undirbúningi þess sé mjög ábótavant. Ég hlustaði á umræður í gær. Mörg álitaefni eru þar uppi sem ég tel að eigi að fá úr skorið áður en þau eru send út. Ég legg áherslu á að málið fari til umsagnar á milli umræðna. Til dæmis ættu landshlutasamtökin úti um land allt að fá að ræða jafnrétti þegnanna til opinberrar þjónustu, óháð búsetu, jafnframt því sem verið er að ræða jöfnun atkvæðisréttar. Þarna eru ýmis atriði mjög gildishlaðin í eina átt (Forseti hringir.) en síðan er horft fram hjá öðrum mikilvægum þáttum, eins og jafnrétti óháð búsetu.

Ég legg áherslu á að þetta fari til nefndar, frú forseti, fái þar góða umfjöllun (Forseti hringir.) og verði sent til umsagnar.