140. löggjafarþing — 78. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:50]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það hefur verið ljóst nokkuð lengi að Sjálfstæðisflokkurinn leggst gegn endurskoðun stjórnarskrárinnar nema á sínum eigin forsendum, að hann geri það sjálfur með sína eigin lögfræðinga í sínum eigin véum og launhelgum. Það er óþarfi, forseti, að hv. þingmaður, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Elín Árnadóttir, beiti þar að auki brögðum eins og foringi klíku í gagnfræðaskóla til að vekja athygli á slíku hinu sama.

Það er orðið ljóst að ef okkur á að takast í framhaldi af þeim atburðum sem hér urðu undir stjórn Sjálfstæðisflokksins og fyrir hans tilverknað að koma á einhverjum drögum og vísi að nýju Íslandi, þar á meðal með stjórnarskrá fólksins, gerist það ekki með aðstoð Sjálfstæðisflokksins. Það er samt óþarfi að Sjálfstæðisflokkurinn leggist eins lágt og hann hefur gert hér til að vekja athygli (Forseti hringir.) á því sem allir vita, að hann er á móti öllu því sem hann ekki stjórnar sjálfur og stendur að í krafti (Forseti hringir.) sérhagsmuna sinna og síns sérstaka og einstaka eðlis.