140. löggjafarþing — 78. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við ræðum tvær atkvæðagreiðslur, annars vegar um að vísa málinu til síðari umr. og hins vegar að vísa því til nefndar. Ég er á móti því að vísa því til síðari umr. vegna þess að málið er bara ekki útrætt og það er svo rangt sem er verið að gera hérna. Það var bent á að spurningarnar rekast á. Ef menn eru búnir að samþykkja stjórnarskrána geta þeir ekki rætt hin atriðin því að þau eru inni í stjórnarskránni og ef þeir eru búnir að hafna henni er það sömuleiðis. Það er margt í þessu vitlaust.

Síðan mun ég greiða atkvæði með því að þetta fari til nefndarinnar þó að nefndin hafi ekki sýnt undanfarið að hún ráði við verkefnið. Hún er búin að vera fimm mánuði og 16 daga að fjalla um nýja stjórnarskrá og hún er ekki búin að klára það efnislega enn þá. Hún hefur ekkert rætt hana efnislega og við erum ekki einu sinni að ræða málið sjálft, við erum að ræða í hvaða feril málið eigi að fara. Það er efnislega órætt og ég samþykki að það fari til nefndarinnar þrátt fyrir þetta en er á móti því að það gangi til síðari umr.