140. löggjafarþing — 78. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum feril stjórnarskrár Íslands sem er grunnlög fyrir landið. Allur þessi ferill er ein harmsaga (Gripið fram í: Rétt.) og það er dapurlegt hvernig farið er með þessi grunnlög okkar.

Í gærkvöldi í skjóli nætur, um miðja nótt, var verið að ræða um stjórnarskrá Íslands. Nú á að vísa þessu til nefndarinnar og ég styð það, en ég vona að nefndin taki málið eins og það sé stjórnarskrá Íslands sem við ræðum og fái til sín umsagnaraðila, sendi málið í umsögn og vinni það eins og venjulegt mál. Mér skilst að menn ætli að fara hraðferð. Nefndin er búin að hafa fimm mánuði og 16 daga til að ræða þessa nýju tillögu að stjórnarskrá og málið hefur ekki verið rætt efnislega. Við erum ekki einu sinni að greiða atkvæði um það núna heldur á að senda stjórnarskrána svona hráa til þjóðarinnar til atkvæðagreiðslu.

Ég vona að nefndin lagi að minnsta kosti spurningarnar þannig að þær séu innbyrðis í samræmi.