Fjölmiðlar

Föstudaginn 30. mars 2012, kl. 15:11:51 (7609)


140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

fjölmiðlar.

599. mál
[15:11]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á nýlegum lögum um fjölmiðla sem voru samþykkt á þinginu árið 2011. Sætti það talsverðum tíðindum enda hafði ekki tekist að samþykkja fjölmiðlalög í landinu fyrr en við það tækifæri.

Í frumvarpinu eru ýmis ákvæði eins og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur farið vel yfir í máli sínu. Ég ætla ekki að gera þau atriði að löngu umfjöllunarefni sem hún hefur reifað og farið ítarlega yfir. Ég tel rétt og eðlilegt að horfa til meginefnis frumvarpsins sem lýtur að rýmkun heimilda fyrir Samkeppniseftirlitið til að grípa inn í varðandi samruna fjölmiðla á fjölmiðlamarkaði og sömuleiðis til að hafa áhrif á markaðsaðstæður. Þar er eðlilegt að við skoðum fyrst þetta samhengi við þær auknu heimildir sem Samkeppniseftirlitið fékk með lagabreytingum árið 2011. Þar eru ákveðnar matskenndar heimildir sem eru settar inn í samkeppnislögin. Við í nefndinni munum væntanlega byrja á því að fara vel yfir að hve miklu leyti þær fullnægja þeim málefnalegu sjónarmiðum sem hæstv. ráðherra rakti í máli sínu.

Það hefur verið mikil gagnrýni á uppbyggingu fjölmiðlamarkaðarins á Íslandi. Þar hafa gefist gegnum árin tilefni til að skoða hvort of mikil fákeppni væri á þessum markaði og hvort í reynd væri verið að tryggja þau markmið sem til dæmis koma fram í fjölmiðlalögunum um fjölræði og fjölbreytni. Menn verða hins vegar að stíga varlega til jarðar, fjölmiðlamarkaðurinn er mjög veikburða. Menn þurfa að vera býsna öruggir með að þær aðgerðir sem gripið er til ríði ekki einstökum aðilum á markaði að fullu.

Ég vildi gera að umtalsefni 10. gr. sérstaklega. Ég tek undir með hæstv. ráðherra, ég held að þær breytingar sem gerðar eru í 6. og 7. gr. séu fyrst og fremst minni háttar breytingar og lúti að því að skýra betur ákvæði 26. og 27. gr. laganna. Ég held að þar sé ýmislegt til bóta frá því sem nú er. Auðvitað er það þannig að niðurstaðan varðandi ákvæði fjölmiðlalaganna, t.d. um friðhelgi einkalífsins, var ákveðin jafnvægislist svo að það sé sagt hreint út. Það er mjög mikilvægt að við förum varlega þegar kemur að allri takmörkun á tjáningarfrelsinu og afar ríkar ástæður sem menn þurfi að bera fyrir sig og rökstyðja nákvæmlega ef verið er að takmarka tjáningarfrelsi með vísan í friðhelgi einkalífsins. Þarna er það gert með vísan í lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu og upplýsingaréttur almennings, að það séu þau atriði sem geti réttlætt að tjáningarfrelsið trompi friðhelgi einkalífsins, ef svo má segja. Ég held að það sé bara til bóta að kveða skýrt á um það.

Það veldur mér hins vegar ákveðnum áhyggjum og efasemdum að þarna er lagt til stigið sé skref í þá átt að herða á viðurlögum varðandi bann við hatursáróðri. Þarna erum við komin inn á viðkvæmt svæði. Auðvitað er mjög auðvelt að rökstyðja að við eigum að spyrna við fótum þegar kemur að hatursáróðri almennt, það grefur undan mannréttindum og við viljum ekki halda upp á slíkt í samfélagi eins og okkar. Hins vegar ekki hægt að neita því að ákvæðið í fjölmiðlalögunum er matskennt. Hægt er að sjá fyrir sér aðstæður þar sem menn gangi of langt í því að reyna að stemma stigu við hatursáróðri og stígi þar yfir þau mörk sem við viljum vernda varðandi tjáningarfrelsið. Það er því ljóst að við munum fara afar vandlega yfir 10. gr. og skoða hvort tilefni sé til að herða viðurlög við 27. gr. eins og hér er lagt til.

Varðandi bann við birtingu skoðanakannana. Ég verð að segja að ég hef fullan skilning á þeim málefnalegu sjónarmiðum sem búa að baki því að vera með ákvæði af þessu tagi í frumvarpinu. Skoðanakannanir hafa mikil áhrif í samfélaginu. Við vitum að stór hluti kjósenda gerir upp hug sinn á síðustu sólarhringunum fyrir kjördag í kosningum til Alþingis og eðlilegt að menn líti til þess hvort skoðanakannanir hafi þar óeðlileg áhrif. Við sjáum það í löndunum í kringum okkur að menn hafa sett ákveðnar reglur í þessu sambandi. Ég held hins vegar að það verði að segjast eins og er að við erum ekki komin mjög langt í víðtækri umræðu um ákvæði af þessu tagi eða bann af þessu tagi. Við hljótum að fara mjög vandlega í gegnum það hvort bannákvæði í lögum mundi raunverulega ná tilgangi sínum, þ.e. koma í veg fyrir að gerðar verði skoðanakannanir og upplýsingar um þær rati til almennings. Ég hef ákveðnar efasemdir um að þessi leið yrði farsæl og tel að skoðanakannanir yrðu áfram gerðar í samfélaginu, hvort sem það yrði á ábyrgð stjórnmálaflokkanna, hagsmunasamtaka eða annarra aðila, og allar líkur séu á að niðurstöður slíkra kannana mundu með einum eða öðrum hætti leka og berast til almennings í landinu. Þá væri grundvelli kippt undan því ákvæði sem við ræðum hér. Við munum fara vel yfir þetta í nefndinni. Það eru vissulega þau sjónarmið að ástæða sé til að reyna að verja almenning fyrir óeðlilegum áhrifum, ef þannig má orða það, af skoðanamyndandi könnunum.

Ég vil í lokin fagna umræðu um stuðning við fjölmiðlana. Ég minni á að það er stefna míns flokks, Samfylkingarinnar, að beita sér fyrir stofnun fjölmiðlasjóðs til að styrkja stöðu rannsóknarblaðamennsku í samfélaginu. Við lifum þá tíma þegar rannsóknarblaðamennska er kannski mikilvægari en nokkru sinni fyrr í okkar samfélagi og aðhald frá fjölmiðlum gagnvart stjórnmálakerfinu, fjármálakerfinu og lykilstofnunum samfélagsins hefur aldrei verið mikilvægara. Það mun kosta eitthvert fé. Það fé liggur ekki á lausu, en ef til vill er tímabært, ekki síst í ljósi þess að ég tel að það sé ágætur þverpólitískur stuðningur við aðgerðir af slíku tagi, að við getum að minnsta kosti stigið svona upphafsskref þó að þau verði hugsanlega ekki stór fyrsta kastið.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu þessa máls. Þarna eru ýmis ákvæði sem horfa til bóta. Við munum fara vel yfir þau og öll ákvæði frumvarpsins í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.