Fyrirkomulag úrskurða í vátryggingamálum

Mánudaginn 16. apríl 2012, kl. 15:49:36 (7674)


140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

fyrirkomulag úrskurða í vátryggingamálum.

517. mál
[15:49]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Svo það sé skýrt þá var ég alls ekki að draga fram einhverja eina skýringu heldur fór ég yfir nokkur atriði sem að okkar dómi í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu eru líkleg til að skýra hvernig þessi hlutföll hafa breyst og hvers vegna hlutfall þeirra mála sem skotið er til nefndarinnar sem ganga málskotsaðila í vil hefur farið lækkandi. Það getur verið í samhengi við hinn mikla fjölda mála, að þetta er tiltölulega einfalt úrræði og að nú er hvatt til þess og miklu meiri upplýsingum komið á framfæri um þennan möguleika. Sömuleiðis má benda á breytingar á tjónanefnd eins og ég sagði áður og jafnvel mætti nefna fleiri atriði. Langlíklegast er því að um margar samverkandi ástæður sé að ræða. Svarið var að sjálfsögðu ekki gefið að óathuguðu máli. Farið var yfir þetta í ráðuneytinu áður, til undirbúnings þessu svari.

Ég tek hins vegar undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað, fyrirspyrjanda og hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að það er að sjálfsögðu ástæða til að fylgjast vel með þessum málum eins og öðrum sem snúa að neytendavernd og stöðu viðskiptavina vátryggingafélaganna eða tryggingafélaga. Það tengist öðru máli sem þarf að koma í betri farveg en það er neytendavernd almennt á sviði fjármálaþjónustu og á fjármálamarkaði og vátryggingarmarkaði þar með töldum. Það er því full ástæða til að fara yfir það eins og endranær en það má vel til sanns vegar færa að aðstæður geta verið viðkvæmar eins og nú háttar til og hefur gert undanfarin missiri eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi.

Þannig að ráðuneytið er sér vel meðvitað um að það er mikilvægt að fylgjast grannt með þessum málum og eiga um þau gott samstarf við þá aðila sem samkomulagið tekur til, Neytendasamtökin og Samtök fjármálafyrirtækjanna. Þetta er samstarfsverkefni sem er mikilvægt þannig að til staðar sé greiður og skjótvirkur úrskurðarfarvegur fyrir ágreiningsmál af þessu tagi sem má ekki vera of íþyngjandi eða flókinn að nálgast. Ég geri þeirri skýringu ekki endilega hátt undir höfði umfram aðrar (Forseti hringir.) nema síður sé, að þetta sé vegna þess að menn leggi minni vinnu (Forseti hringir.) í rökstuðning mála. Þó liggur í hlutarins eðli að ef menn senda málin fyrst og fremst til að fá (Forseti hringir.) þau á hreint getur það átt við í einhverjum tilvikum.