Réttarstaða fatlaðra til bifreiðakaupa

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 10:32:21 (8567)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

réttarstaða fatlaðra til bifreiðakaupa.

[10:32]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Réttarstaða fjölskyldna fatlaðra barna á Íslandi er mjög óljós varðandi styrk til kaupa á sérútbúnum bifreiðum. Sem dæmi má nefna að sex manna fjölskylda með átta ára gamla fjölfatlaða stúlku hefur lent í því að vera kastað á milli stofnana varðandi eftirgrennslan um styrk til bifreiðakaupa. Á árinu 2008 ætlaði þessi fjölskylda að stækka við sig bíl til að komast saman ferða sinna en því var synjað þar sem stúlkan var ekki orðin nægilega þung. Nú er ekki lengur hægt að koma fjölskyldunni saman í einn bíl, fjármögnun á nýjum bíl kallar á um 9 millj. kr. og þegar leitað er eftir styrk er fjölskyldunni bent á að sækja um en sagt að styrkbeiðninni verði að öllum líkindum hafnað og þá sé eina ráðið að kæra úrskurðinn.

Nú liggur fyrir úrskurður frá úrskurðarnefnd almannatrygginga í sambærilegu máli sem leiðir fram að túlkanir Tryggingastofnunar á þessum ákvæðum samræmast hvorki reglugerð né lögum. Þvert á móti er dregin sú ályktun í úrskurðinum af 10. gr. laga um félagslega aðstoð að með miklum ólíkindum sé að fólkið sé afgreitt með þessum hætti.

Ég inni hæstv. velferðarráðherra eftir því hvort hann telji þetta boðlegan samskiptamáta við fjölskyldur þessara barna og enn fremur hvernig hæstv. ráðherra hyggist bregðast við þeim úrskurði sem (Forseti hringir.) liggur fyrir í þessum málum.