Sjúklingar sem bíða eftir hjúkrunarrými

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 11:02:09 (8584)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

sjúklingar sem bíða eftir hjúkrunarrými.

[11:02]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu efni. Það hefur verið í fjölmiðlum undanfarið. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ekki er ætlunin að binda sjúkrarúm fyrir fólk sem ætti að vera á hjúkrunarheimilum. Brugðist hafði verið við þessu að hluta til með því að opna nýja deild aftur á Landakotsspítala sem hv. þingmaður veit eflaust af. Það sem hefur verið að gerast á höfuðborgarsvæðinu hefur fyrst og fremst verið það að verið er að fækka rýmum vegna þess að verið er að eyða tvíbýlum og taka upp einbýli og síðan hefur verið ætlunin, og samkomulag hefur verið um það við Reykjavíkurborg, að auka heimaþjónustu og heimahjúkrun þannig að fólk þyrfti að fara seinna inni á hjúkrunarheimili og vera þar skemur.

Það sem þarna er að gerast er gamall draugur eins og hv. þingmaður vekur athygli á. Hér voru allt að 100 manns sem komust ekki áfram út af Landspítalanum. Það var leyst á tímabili en nú er þessi draugur kominn aftur og ýmsar ástæður fyrir honum. Það er verið að skoða hann betur. Meðal annars er ástæðan sú að hver aðili hefur val, það er vistunarmat þarna á bak við og hver aðili á kost á að velja úr þremur heimilum. Nokkrir hafa neitað að fara nema á fyrsta valkostinn og ekki þegið boð um að fara á heimili þar sem enn er tvíbýli eða fjölbýli. Þetta er auðvitað mikið áhyggjuefni. Við erum búin að hækka kröfurnar, sem er mjög jákvætt, en við þurfum eftir sem áður að geta stýrt fráflæðinu frá Landspítalanum og að því er mjög skipulega unnið. En það kostar auðvitað. Það er ekki bara sparnaður af því að rúmin verða áfram nýtt á Landspítalanum heldur verður þá að bæta við rýmum. Við erum að skoða það í framhaldi af þessari umræðu og höfum svo sem haft það til athugunar áður. Einnig hefur verið gripið til aðgerða út af sjúklingum sem þurfa dýr lyf og tæki, að hjálpa þurfi þeim hjúkrunarheimilum sem taka við þeim einstaklingum.