Sjúklingar sem bíða eftir hjúkrunarrými

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 11:04:21 (8585)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

sjúklingar sem bíða eftir hjúkrunarrými.

[11:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en eftir stendur að það er mjög skrýtið að þessi staða sé komin upp. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við var þetta stórt vandamál. Við tókum á því, bæði með því að breyta forganginum og breyta vistunarmatinu þannig að þeir sem þurftu mest á þjónustunni að halda gengu fyrir á hjúkrunarheimilum og sömuleiðis með því að auka heimaþjónustu. Við erum búin að vita það í áratugi að þjóðin er að eldast, það er alveg vitað hver þróunin á að vera í þessu og hver hún verður.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að það kom mér mjög á óvart að sjá þessar fréttir. Þetta er slæmt af svo mörgum ástæðum. Það er slæmt fyrir það fólk sem þarf á þjónustu að halda að fá ekki þjónustu við sitt hæfi og síðan er alverst að þetta er aukinn kostnaður. Það er dýrara þegar fólk er fast inni á Landspítalanum í stað þess að fá þjónustu við hæfi, annaðhvort á hjúkrunarrými eða með heimaþjónustu og heimahjúkrun.