Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 11:33:21 (8591)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra: Gerði hæstv. fjármálaráðherra einhverjar athugasemdir við afgreiðslu þessa máls þegar frumvarpið var afgreitt úr ríkisstjórn? Mjög einföld spurning.

Eins og kemur fram í frumvarpinu mun það hafa áhrif á áætlun ríkisstjórnarinnar eða stjórnvalda um jöfnuð í ríkisfjármálum verði frumvarpið að lögum. Þá hlýtur sú eðlilega spurning að vakna: Hefur þeirri áætlun verið breytt að fjárlög 2014 verði hallalaus? Það var búið að taka ákvörðun um að svo yrði. Með hvaða hætti á að bregðast við, verða það áform um aukna tekjuöflun eða hugsanlega um niðurskurð einhvers staðar, til að mynda í heilbrigðismálum eða menntamálum? Ef ekki er búið að breyta áætlun í ríkisfjármálum um jöfnuð, hvernig á að bregðast við að öðru leyti?