Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 11:40:25 (8597)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gjarnan fylgja aðeins eftir spurningunni um þjónustusamninginn því að ég tel hann vera mjög mikilvægt tæki sem er gott fyrir menntamálaráðuneytið að hafa varðandi aðhald og kröfur um hvað beri að setja fram í dagskrá Ríkisútvarpsins til þess einmitt að uppfylla almannaþjónustuhlutverkið.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sjái fyrir sér hvernig þjónustusamningnum verði fylgt eftir og þeim kröfum sem settar eru fram í honum hverju sinni. Ég held að þetta sé lykilatriði varðandi það að við sjáum að kröfu okkar um að Ríkisútvarpið sé raunverulega að sinna almannaþjónustu en sé ekki í samkeppnisrekstri sé fylgt. Ég tek undir með ráðherra að draga á Ríkisútvarpið sem mest út úr samkeppnisrekstrarumhverfinu en hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir þjónustusamningnum þannig að Ríkisútvarpið sinni almannaþjónustuhlutverki sínu?