Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 11:45:37 (8602)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé kannski rétt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um þetta við hentugt tækifæri. Ég vil bara ítreka þau sjónarmið sem ég hef þegar sett hér fram að ég tel að hér gildi sérstök sjónarmið um almannaþjónustufjölmiðilinn. Ég held að flestir sem þekkja vel til í þessum fræðum, þ.e. fræðum um fjölmiðlun í almannaþjónustu og þar á meðal útvarpsstjóri, séu mér sammála. Ég tel að hér gildi sérstök sjónarmið þó að ég geti almennt tekið undir heildarstefnumótun um að draga eigi úr vægi markaðra tekna í ríkisútgjöldum. (Gripið fram í.) Ég held að það geti farið saman.

Hvað varðar hins vegar tímalengdina legg ég það eins og ég segi í dóm hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Ég vona satt að segja að þar geti fólk náð saman um sem flest atriði en ég lít svo á að það verði að hafa sína eðlilegu þinglegu meðferð. Ég minni þó á að frumvarpið kom hingað inn fyrir síðasta tímafrest og ég vona að sjálfsögðu að það geti gengið eftir en þar munum við taka því sem að höndum ber.