Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 12:26:36 (8612)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[12:26]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnirnar og reyni að svara þeim eftir fremsta megni.

Í fyrsta lagi varðandi tímamörkin og stöðu málsins í þinginu. Hæstv. ráðherra fór yfir það að auðvitað hefði verið betra að frumvarpið kæmi fyrr fram. Ég get tekið undir það en þar eru ákveðnar skýringar sem lúta að því víðtæka samráðsferli sem hefur átt sér stað.

Á þessum tímapunkti get ég í raun og veru ekki sagt annað en það að við sem sitjum í nefndinni, allsherjar- og menntamálanefnd, berum þar í raun jafna ábyrgð á því að finna út úr því sameiginlega hvenær við teljum að málið sé orðið nægilega þroskað til að afgreiða það út úr nefndinni. Það er augljóst að tíminn sem við höfum til stefnu til að afgreiða málið á þessu þingi er ekki langur, en það fer dálítið eftir því hvaða mat við leggjum á efni frumvarpsins og hvort við teljum að þar séu margir þættir sem þurfi ítarlegrar skoðunar við.

Ég er almennt þó í prinsippinu þeirrar skoðunar að mál af þessu tagi þurfi að vinna mjög vandlega því að það eru svo miklir almannahagsmunir undir. Ég treysti mér ekki á þessum tímapunkti til að segja af eða á um hvort þetta náist þó að ég telji fulla ástæðu til að freista þess að ná þessum markmiðum.

Varðandi auglýsingarnar á vefnum verð ég reyndar að minna á að það segir í 7. gr. frumvarpsins að Ríkisútvarpinu sé óheimilt að selja viðskiptaboð til birtingar á vefnum. Síðan eru undantekningar sem lúta sérstaklega að efni sem þegar hefur verið sýnt í sjónvarpinu og er síðan birt eða endurflutt á vefnum. Það er ákveðin heimild til að vera með slíkar auglýsingar en ég tel að það sé skýr takmörkun á því að útvarpið geti breitt verulega úr sér í því skyni.