Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 12:31:07 (8614)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[12:31]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að fara nákvæmlega yfir hverjar þessar undanþágur eru. Það er í raun og veru skýr takmörkun gegn því að Ríkisútvarpið selji beint auglýsingar til birtingar á vefnum, það er óheimilt beinlínis og sagt skýrt í 7. gr. frumvarpsins. Hins vegar eru tvær undantekningar nefndar; heimilt er að láta auglýsingar og kostunartilkynningar sem eru hluti af útsendri dagskrá Ríkisútvarpsins birtast á vefnum ef um er að ræða samtímaútsendingar í gegnum ljósvakann og á vefnum, og hins vegar ef um er að ræða sérstakar vefútsendingar, þá eru auglýsingar eða kostunartilkynningar heimilar.

Ég held að í fyrra tilvikinu sé um eðlilega undanþágu að ræða, en í síðara tilvikinu má vel sjá fyrir sér þau tilvik að þetta gæti farið úr böndum, ef svo má segja. Það er ágætisverkefni fyrir allsherjar- og menntamálanefnd að fara vel yfir hvort nauðsynlegt sé að setja inn einhvers konar hámark, einhvers konar þak á þessi umsvif ef þessi undanþága fer í gegn á annað borð. Þannig að ég get fallist á að það sé eðlilegt að nefndin skoði sérstaklega við meðferð málsins hvort þarna sé verið að opna dyrnar óeðlilega mikið, ef svo má segja.