Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 13:42:39 (8619)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[13:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Þetta er umfangsmikið frumvarp. Það er margt athyglisvert í því og að mínu mati vel nýtilegt, vel hægt að nota sér til þess að stuðla að þeim grunnstoðum sem þurfa að tengja okkur við Ríkisútvarpið samhliða því að við lítum til alls fjölmiðlamarkaðarins, hvernig hann getur lifað og dafnað í ljósi þess að við viljum hafa hér öflugt Ríkisútvarp.

Ég hef tekið margar ræðurnar og umræðurnar hér fram eftir nóttu, [Kliður í þingsal.] kvöldum o.s.frv. á umliðnum árum um einmitt Ríkisútvarpið.

(Forseti (ÁI): Forseti óskar eftir því að menn haldi fundi utan þingsalar og hafi hljóð í hliðarsölum. Hv. þingmaður heldur nú áfram máli sínu.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir þessa umhyggju.

Ýmislegt hefur verið rætt, sérstaklega þegar við stefndum að því að breyta Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag. Ég vek sérstaklega athygli á því að þá voru margar ræðurnar af hálfu stjórnarandstöðunnar fluttar þar sem ýmislegt var sagt út af þeirri formbreytingu því að menn tortryggðu hana mjög. Þetta frumvarp breytir ekki þeirri formbreytingu sem við gerðum, að því er ég tel, og ég vona að menn sjái að hún var í stórum dráttum til batnaðar þó að ekkert mannanna verka sé algjörlega fullkomið.

Það eru ákveðin atriði í þessu frumvarpi sem ég fagna sérstaklega. Þau taka á því sem betur hefði mátt fara en opinbera hlutafélagið Ríkisútvarpið ohf. verður áfram og ég fagna því.

Ég sé að mikið er lagt í hvernig menn skilgreina almannaþjónustu. Ég tel eðlilegt að menn fari vel yfir þá skilgreiningu. Ég fagna velflestum atriðum sem koma þar fram en á hinn bóginn held ég að það sé eðlilegt að við gerum ríka kröfu til Ríkisútvarpsins í sambandi við almannaþjónustuhlutverkið. Ég tek í sjálfu sér undir þá áherslu þar sem er verið að ýta betur og meira undir almannaþjónustuhlutverkið þó að við höfum alltaf haft skoðanir á því hverju Ríkisútvarpið eigi að sinna. Það á að vera með öfluga fréttaþjónustu, það á að vera öryggisveita, það á að sinna því að við getum notið menningar, lista, íþrótta eða hvað það er, en ekki síst viljum við sjá aukna innlenda dagskrá með innlendum framleiðendum og að það leggi áherslu á íslenskt menningarefni sem er stórt hlutverk Ríkisútvarpsins.

Gagnrýnt hefur verið, m.a. af minni hálfu, hvernig Ríkisútvarpið hefur sinnt hlutverki sínu. Það hefur að vísu verið að eflast frekar en hitt — við skulum vera á jákvæðu nótunum. Ég sé það á öllu að hægt er að gera betur og að forustumenn og forsvarsmenn Ríkisútvarpsins hafi þann metnað að gera enn betur í þeim efnum. Við sem erum annars staðar í samfélaginu eigum auðvitað að hjálpa Ríkisútvarpinu að sinna því hlutverki en það má ekki vera gert á kostnað samkeppnisumhverfisins og þeirra sem fyrir eru á markaði. Þær línur er verið að skerpa.

Vangaveltur hafa verið um þær leiðir sem farnar eru í frumvarpinu varðandi heimild Ríkisútvarpsins til að stofna dótturfélög. Ég skil þetta þannig, og ég mun fara yfir það í nefndinni, að það sé fyrst og fremst gert til þess að skattpeningar ríkissjóðs sem settir eru í Ríkisútvarpið verði ekki notaðir til að greiða niður rekstur þess sem er í samkeppni. Ég skil það þannig að menn séu að aðgreina þarna á milli. Þetta er samt þáttur sem við verðum að fara mjög vel yfir, þ.e. heimild til að stofna dótturfélag Ríkisútvarpsins, því að þessi leið veltir upp ákveðnum spurningum um það hvort Ríkisútvarpið muni þá fara í margs konar starfsemi aðra sem beint eða óbeint tengist starfsemi Ríkisútvarpsins. Þetta er þáttur sem við munum fara gaumgæfilega yfir þegar málið kemur til nefndar.

Það er ekki langt síðan samþykktur var heildstæður lagabálkur um Ríkisútvarpið, lagabálkur sem þarf að fara betur yfir til að útfæra nánar eins og ég gat um áðan ákveðna þætti sem var breytt á sínum tíma, m.a. rekstrarforminu. Fyrst og fremst var farið af stað í þá ferð sem þetta frumvarp snýst um á grundvelli athugasemda ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Mér finnst þær breytingar sem við þurfum að gera á Ríkisútvarpinu hafa verið notaðar til margs annars sem er ekki endilega í tengslum við athugasemdir ESA.

Fyrst vil ég draga fram hvernig skipa á stjórn Ríkisútvarpsins. Ég ætla ekki að fagna þeirri breytingu eins og hv. þm. Skúli Helgason. Ég held að þetta sé breyting sem við þurfum að fara sérstaklega yfir því að ein meginforsenda hennar á sínum tíma var að klippa á pólitíska strengi, þ.e. menntamálaráðherra átti ekki að skipa útvarpsstjóra, framkvæmdastjóra útvarps og sjónvarps eins og var heldur skyldi ráðherra í rauninni hafa skipunarvald yfir útvarpsráði. Reynt var að fara þá leið að klippa sem mest á þá strengi.

Menn sögðu: Er heppilegt að Alþingi skipi útvarpsráð? Það má alveg deila um það að núverandi fyrirkomulag sé það besta, en mér finnst það þó gegnsærra en sú vegferð sem er verið að leggja í núna, að ráðherra skipi einn mann sem verður formaður. Ég tel það vera vísbendingu um að breytingin sé afturhvarf til fortíðar og ég ætla rétt að vona að menn ætli sér ekki að setja pólitísk fingraför á stjórn Ríkisútvarpsins aftur. Þá hyrfum við að nokkru leyti aftur til fortíðar. Ég tel heppilegra að þingið komi beint að skipuninni og það verði þá gegnsætt að flokkarnir hafi einfaldlega sína fulltrúa þar inni. Hægt er að hafa útfærslu sem ég held að sé ágæt, að menn skipi nefnd til að tilnefna fulltrúa í stjórnina.

Mér finnst umhugsunarefni að ráðherra skipi annars vegar einn mann í stjórn og hins vegar tilnefni starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins annan mann. Mér finnst umhugsunarefni að starfsmenn hafi beint aðgengi, seturétt, tillögurétt og fullan þátttökurétt í stjórnum stofnana á vegum hins opinbera. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé stefna ríkisstjórnarinnar og hvort við megum framvegis búast við því að starfsmenn ríkisstofnana eða þeirra félaga sem ríkið á í muni alltaf eiga fulltrúa í stjórnum þeirra. Ég held líka að það sé afturför að hafa þetta með þessu móti.

Ég er ekki að segja að starfsmenn eigi ekki að koma að stefnumörkun, þeir gera það. Það er alltaf tryggt að leitað er til þeirra. Ég veit ekki betur en að það hafi gengið þokkalega.

Ég vek athygli á því að Ríkisútvarpið þurfti fyrir nokkrum árum að fara í mjög sársaukafullar breytingar á innra skipulagi sínu við formbreytinguna. Það þurfti að segja upp starfsmönnum. Það þurfti að breyta fyrirkomulaginu til samræmis við lögin, m.a. til að ná fram hagræðingu í rekstri stofnunarinnar. Það vill svo til að eftir að forustumenn Ríkisútvarpsins hafa unnið í einhvern tíma eftir þessu nýja fyrirkomulagi hefur Ríkisútvarpið verið rekið með hagnaði tvö ef ekki þrjú ár í röð og það hefur aldrei gerst áður í sögu þess. Breytingin sem slík á rekstrarumhverfi stofnunarinnar varð því til hagsbóta fyrir alla.

Ég efast um að það hefði verið gott að hafa starfsmenn í stjórn Ríkisútvarpsins til að fara í sársaukafullar aðgerðir sem menn þurfa af og til að standa frammi fyrir þegar gerðar eru ákveðnar breytingar á rekstri ríkisstofnana eða félaga í þeirra eigu. Ég set þetta fram, það er örugglega ekki til vinsælda fallið hjá starfsmönnum Ríkisútvarpsins en það er mín skoðun að heppilegra hefði verið ef þeir hefðu komið að málefnum Ríkisútvarpsins með öðrum hætti. Ríkisútvarpið er stofnun í allra eigu, hún er ekki í eigu starfsmanna Ríkisútvarpsins heldur allra. Þess vegna geri ég þessar athugasemdir og set þær fram hér varðandi stjórnskipulag stofnunarinnar.

Í andsvari við hv. þm. Skúla Helgason áðan kom ég inn á efasemdir mínar um þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Ég viðurkenni alveg og hef áður sagt það í þessum ræðustól að mín skoðun hefur verið sú að takmarka eigi Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði. Því fagna ég því skrefi sem er verið að taka hér, að verið er að reyna að ná utan um hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Mér auðnaðist hins vegar ekki að fá það samþykkt, hvorki innan míns flokks né samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins, á sínum tíma að fara í takmarkanir fyrir Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði.

Ég fagna þessu skrefi en velti því samt fyrir mér hvort ekki hefði verið nærtækara að hafa skrefið gegnsærra en þessi mælanlegu hlutföll eru þar sem grunnurinn er settur fram af hálfu Ríkisútvarpsins. Það má efast um þessa aðferðafræði. Ég legg aftur fram þá hugmynd sem áður hefur verið nefnd: Af hverju var Ríkisútvarpinu ekki einfaldlega heimilað að vera með auglýsingar á tímabilinu 18–20 eins og gert er á þýsku ríkisstöðvunum? Þær hafa í rauninni eingöngu áætlaðan tíma sólarhringsins til auglýsinga og allt er það mjög takmörkunum háð hvernig ríkisfjölmiðlarnir í því landi geta verið inni á auglýsingamarkaði.

Hluti af því sem hefur stuðlað að ákveðinni tortryggni í garð Ríkisútvarpsins er hvernig það hefur hagað sér á markaði. Þess vegna tel ég að ýmis skref sem eru tekin í þessu frumvarpi séu jákvæð að því leytinu til að þeim er ætlað að skerpa á þessum þætti í starfsemi Ríkisútvarpsins. Ég er hins vegar ekki sannfærð um að það sem gert er hér verði til þess að þeirri tortryggni verði eytt. Ég efast ekki um að við munum fá margvíslegar vísbendingar varðandi þessi atriði, ekki síst frá einkareknum fjölmiðlum á markaði hér á landi.

Ég hef áður vakið athygli á vef Ríkisútvarpsins. Það rekur ágætan vef. Ætlunin er að taka alla vega fyrstu skrefin í þá veru að heimila Ríkisútvarpinu auglýsingar á vefnum. Þeim er ekki heimilt að auglýsa bara á vefnum en það verður hægt með óbeinum hætti, þ.e. ef viðskiptaboð og kostunartilkynningar eru hluti af vefnum. Hvað mun auglýsingadeild Ríkisútvarpsins gera? Hún mun tengja alla sölu sína á auglýsingum því að hún geti líka sett auglýsingar þar inn, hvort sem það eru þættir eins og Útsvar, Eurovision-keppnin eða Gettu betur sem er verið að selja auglýsingar út á, þannig að þessir þættir yrðu settir á vefinn. Það er verið að ýta undir og styrkja Ríkisútvarpið á þessu sviði og breikka í rauninni aðstöðu þess.

Við eigum eftir að ræða þetta. Ég efast mjög um þá leið sem menn eru að fara á vefnum, ekki síst með tilliti til þess sem ég sagði hér áðan um að mesta gróskan og fjölbreytnin á fjölmiðlamarkaði, sem við höfum gjarnan rætt um í þingsal, er einmitt á vefnum, á netinu, og mér finnst vont, hvort sem okkur líka vefirnir sem er viðhaldið hér á landi eða ekki, ef við ætlum að takmarka möguleika þeirra til að lifa af í þeim annars harða heimi.

Ég vil líka aðeins vekja athygli á því — fólki finnst það kannski ekki stórt mál — að ég sé ekki neitt í fljótu bragði um safn Ríkisútvarpsins. Safn Ríkisútvarpsins er kannski ekki gullnáma en við eigum mjög merkilegt menningarsafn í Ríkisútvarpinu. Ég hefði gjarnan viljað sjá ákveðnum atriðum í þá veru forgangsraðað í almannaþágu. Efnið sem þar er, og þá er ég vísa allt aftur til stofnunar þess fyrir ríflega 80 árum, er hægt að hafa aðgengilegra á netinu, á vefnum, þannig að fólk geti auðveldlega notað og nýtt sér safnið. Ég kem með þessa ábendingu í ljósi þess að ýmsir háskólanemar sem ég hef rætt við hafa verið að skrifa ritgerðir, hvort sem það eru BA-ritgerðir, meistararitgerðir eða doktorsritgerðir, og það er ýmislegt sem hægt er að nýta í safni Ríkisútvarpsins til að styrkja þau fræðiskrif en það er mjög erfitt að nálgast sumar heimildirnar sem Ríkisútvarpið eitt situr að. Ég vildi koma þessu á framfæri og tel að þetta sé þáttur sem við í nefndinni eigum að fara betur yfir.

Ég hlýt í örstuttu máli að vekja athygli á umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem ráðherra vék að í ræðu sinni. Það er ljóst að mínu viti að þetta mál er mjög seint fram komið og ekki hjálpar þessi umsögn fjárlagaskrifstofunnar til ef á að reyna á þessum skamma tíma sem eftir er að afgreiða frumvarpið um Ríkisútvarpið. Vægt til orða tekið er fjárlagaskrifstofan með margvíslegar ábendingar varðandi þetta frumvarp sem við verðum að fara mjög vel yfir í nefndinni.

Flestar ábendingarnar fjárlagaskrifstofu held ég að menn geti samþykkt, en ég er á bandi ráðherra þegar kemur að því hvar hlutabréfið eigi að vera vistað. Ég tel stofnunina eða hlutafélagið Ríkisútvarpið vera það sérstakt að það eigi helst að vera hjá þeim sem ber faglega ábyrgð á rekstrinum þegar upp er staðið og það er mennta- og menningarmálaráðherra. Þar á það að vera. Ég skil vissulega þau sjónarmið fjárlagaskrifstofunnar að það eigi að vera hjá fjármálaráðuneytinu og tek í sjálfu sér undir þá heildarstefnu að eignarhlutur ríkisins í hinum ýmsu ríkisstofnunum eða félögum eigi að vera á forræði fjármálaráðuneytisins. Hins vegar hefur Ríkisútvarpið sérstöðu.

Ég fagna því að menn halda áfram að líta til Noregs. Ég held að það sé ástæðan fyrir því að menn hurfu ekki aftur og drógu til baka hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins, líka hvað varðar varðveislu hlutabréfsins. Ég held að það sé mikilvægt að við förum yfir þennan þátt. Sjónarmið fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins eru skiljanleg en minn skilningur er frekar sá að menntamálaráðuneytið hafi málið á sinni könnu.

Aðrir þættir í umsögn fjárlagaskrifstofu eru mjög umhugsunarverðir eins og sá halli sem mun myndast á ríkissjóði. Það kemur hvergi fram, hvergi í umræðunni — og ég undrast það mjög að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki vera viðstödd umræðuna því að þetta er með veigameiri umsögnum frá fjármálaráðuneytinu um mál úr öðru ráðuneyti. Halli upp á 700 milljónir bætist við ríkissjóð ef þetta frumvarp verður að lögum. Hvernig á að brúa það? Hvar er forgangsröðunin? Á að auka skatttekjur út af þessari millifærslu eða hvernig ætlar ríkissjóður að brúa þetta? Ég hefði gjarnan viljað hafa hæstv. fjármálaráðherra hér.

Síðan er það það sem ég spurði hæstv. ráðherra að áðan. Þó að fyrirtækið fái auknar tekjur með því að marka tekjustofninn beint til félagsins kemur skýrt fram að það þarf að draga saman seglin í rekstrinum samkvæmt fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þá hefði verið gott að vita: Hvar mun það koma niður, hvar munum við sjá þess stað að (Forseti hringir.) sá samdráttur muni koma fram?

Ég segi enn og aftur: Við þurfum að tryggja Ríkisútvarpinu eðlilegt rekstrarumhverfi og það verður að gera með það að leiðarljósi (Forseti hringir.) að við þurfum að tryggja hér ríkisútvarp sem stuðlar að almannaþjónustu og útvarpi fyrir alla.