Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 14:25:07 (8622)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[14:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að veita andsvar og svara spurningum. Það eru 113 sinnum 80 millj. kr., miðað er við það ef þetta frumvarp rennur í gegn, en það er mjög auðvelt að ná því til baka í auglýsingatekjum, það er öllum ljóst sem eitthvað þekkja til. Meðan menn eru með kostun þar inni er til dæmis hægt að vega það upp með þeim hætti. Ég mundi vilja fá skoðun hæstv. ráðherra á því hvort ekki væri skynsamlegt, ef hæstv. ráðherra vill ná því sjónarmiði fram — ég kann ekki alveg tungumálið í markaðssjónarmiðum, þetta er meira vinstri manna tungumál sem ég er ekki mjög góður í. (Menntmrh.: … læra.) Ég skal reyna. Ég held að það sé allt annað en markvisst skref að taka útvarpið af auglýsingamarkaði. Þvert á móti er með því verið að auðvelda mönnum að ná í auglýsingatekjur. Það eina sem er jákvætt er að gjaldskráin er opin. Ég held að það sé mjög mikilvægt skref.

Svo kemur fram, og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það, að það er bara sjónarmið hæstv. ráðherra að Ríkisútvarpið eigi að gera allt. Það er sett í þessa umræðu, það er svo fallega orðað. Ég er ekki viss um að það hafi góð áhrif á íslenskt þjóðfélag, eiginlega þvert á móti, en hins vegar er þetta mjög fallega orðað: Fjölbreytt efni og fyrir alla og hvað þetta heitir allt saman og eftir smástund þurfa menn að fjölga rásunum því að það verður að nálgast fleiri hópa þar sem þetta á allt að vera svo fjölbreytt, ekki bara afþreying heldur líka menning og hvað sem það nú er. Og þó að þetta vesalings fólk, sem er að rembast við að setja upp litla fjölmiðla, fari á hausinn, það vorkennir því enginn, það á hvort eð er ekkert gott skilið.

Ég spurði hæstv. ráðherra um hlutlægnina og þann greiða aðgang sem VG hefur að fréttaskýringaþáttum og vildi fá svar frá hæstv. ráðherra varðandi það.