Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 14:29:06 (8624)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[14:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af þessu með auglýsingarnar; gefum okkur að það sé allt rétt og þetta þýði 80 millj. kr. auglýsingaskerðingu, en menn fá það samt sem áður ríflega til baka með öðrum hætti ef frumvarpið nær fram að ganga. Hér hafa menn bent á að það muni hafa þær afleiðingar fyrir fjárlögin að það útheimti 700 millj. kr. í útgjöld til viðbótar. Það er auðvitað bara dropi í hafið fyrir utan það að það er einfaldlega ekki rétt, þetta þýðir ekki 80 millj. kr. tap fyrir Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði, svo mikið veit ég og allir þeir sem einhvern tíma hafa komið að þessu málum.

Hæstv. ráðherra nefnir að hún hafi aldrei verið í þeim fræga þætti Speglinum … (Menntmrh.: Ekki Speglinum, sjónvarpinu.) Fyrirgefðu, sjónvarpinu. Hæstv. ráðherra (Gripið fram í.) hefur verið í Speglinum, ég verð einhvern tímann að spyrja hæstv. ráðherra um hvernig það sé að vera í Speglinum. Það hlýtur að vera hrikalega gaman. En tölurnar tala sínu máli. Búið er að taka þetta út aftur og aftur. Það eru bara opinber gögn, það eru allir búnir að sjá það. Það hefur komið fram í svörum frá hv. þingmönnum og var í Viðskiptablaðinu um daginn. Það er eins og með blessaðan Spegilinn, Vinstri grænir eru búnir að vera 82 sinnum, Samfylkingin 60 sinnum, Sjálfstæðisflokkurinn 23 sinnum og Framsóknarflokkurinn 18 sinnum. Stjórnin er með 75% af tímanum og stjórnarandstaðan 25%. Það er ekkert nýtt í því. Það er alltaf eins ef menn skoða sjónvarpsþáttinn eða útvarpsþáttinn, það er mjög mikil vinstri slagsíða. Eitt er að tala, annað er síðan hvort við ætlum að framkvæma. Ég sé ekkert í þessu frumvarpi sem mun breyta því. Þetta eru bara falleg orð, ágætlega skrifaður texti og við munum ekki bæta umræðuna, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, þó að þetta frumvarp verði klárað.