Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 14:31:25 (8625)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[14:31]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir yfirgripsmikla ræðu hans hér áðan. Ég vil hnykkja á örfáum atriðum. Í fyrsta lagi varðandi umræðuna um takmarkanir um veru RÚV á auglýsingamarkaði þá held ég að allir hljóti að viðurkenna að þarna er stigið ákveðið skref og reyndar nokkur skref. Það munar kannski helst um tvö skref, í fyrsta lagi að hámarkið fari í 8 mínútur úr 12 mínútum og það er hámarkið, þetta eru ekki meðaltalsmælingar. Það mun skerða tekjurnar um um það bil 80 millj. kr. En það sem munar þó töluvert meira um er ákvæðið um að ekki megi rjúfa dagskrárefni að hefðbundinni lengd með auglýsingum. Það mun bæta um 165 millj. kr. við þannig að samanlagt yrði tekjutapið tæpar 250 millj. kr. á ársgrundvelli.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að sjálfsagt er að skoða mjög vel það sem lýtur að kostunum, og það munum við gera í nefndinni, og hvort finna megi praktískar leiðir til að draga úr þeim án þess að hægt sé að fara í kringum þær reglur, eins og hæstv. menntamálaráðherra nefndi í máli sínu.

Varðandi umræðu um vinstri slagsíðu á Ríkisútvarpinu held ég að við hljótum að þurfa að skoða þar heildarsamhengi hlutanna og fara vel í gegnum fréttaþjónustu RÚV. Það er hún sem hefur langmest áhorf, langmesta hlustun og þar af leiðandi langmest áhrif. Ég held að við munum komast að því að það kunni að vera talsvert frá því að við munum greina vinstri slagsíðu, t.d. á umfjöllun um það sem er að gerast í þinginu.

Svo vil ég að lokum óska eftir því að hv. þingmaður gefi mér einhver dæmi um takmarkanir á dagskrárefni Ríkisútvarpsins í gildandi lögum. Það væri fróðlegt að fá þau fram.