Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 15:10:12 (8632)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[15:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er hið augljósa, að til að hægt sé að reka þetta ríkisapparat eins og gert er þannig að eitthvert gagnsæi sé í raun og veru um hvernig á að reka viðkomandi stofnanir, þá þarf ákvörðunin auðvitað að vera tekin hér á Alþingi. Það er með ólíkindum, þó að ég hafi ekki gert mér grein fyrir því fyrr en ég tók sæti hér, að það skuli vera ákveðin fjárlög sem í raun og veru gilda ekki. Það gildir fyrir suma en ekki aðra.

Hv. þingmaður nefndi eitt ákveðið dæmi, sem er hið augljósa. Ákveðin stofnun sem hefur þjónustugjöld eða skatt sem er eyrnamerktur viðkomandi stofnun — tekin er ákvörðun um að hækka þann skattstofn til að viðkomandi stofnun geti — hvað? Jú, byggt upp tölvukerfi eða gert hvað sem er á hverjum tíma. Ég minni á að það eru svo margar stofnanir og langflestar sem hafa engan sérstakan skatt sem þær geta nýtt til þess að fara í svona verkefni. Það liggur fyrir eins og til að mynda með heilbrigðisþjónustuna og annað. Það gefur augaleið. Þetta er svo mikið óréttlæti gagnvart þeim stofnunum.

Það sýnir reynslan og því er verið að vinna að þessu frumvarpi í ráðuneytinu í samvinnu og samstarfi við fjárlaganefnd, og það er enginn pólitískur ágreiningur um þetta, alla vega ekki í nefndinni. Ég hélt að það gerðist í raun og veru ekki á þinginu fyrr en ég sá þetta frumvarp að það skyldi vera með þeim hætti að allt færi á sérstakan fjárlagalið til að vita hve umfangsmikill reksturinn væri.

Ef við tökum til dæmis Fjármálaeftirlitið sem var með ákveðinn skattstofn, það jók útgjöldin um 500 milljónir á síðasta ári vegna þess að skatturinn átti að skila svo og svo miklu, en þá var í raun og veru búið að taka fjárstjórnarvaldið frá Alþingi. Ef Alþingi hefði ákveðið í einhverju samkomulagi við einhverja aðila að lækka þennan skatt, við skulum segja bara á miðju ári, þá hefði rekstrargrundvöllur stofnunarinnar náttúrlega hrunið, þannig að ekki er hægt að reka stofnanir með neinu viti með þessum hætti. Þess vegna er verið að vinna þessa vinnu í hv. fjárlaganefnd og í ráðuneytinu.