Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 15:14:23 (8634)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[15:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessari spurningu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur kemur fram hið augljósa. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur þessi ábending fram, þ.e. um þegar tekjustofninn er sveiflukenndur. Það kemur til dæmis fram að á árinu 2011 greiddu 176 þús. einstaklingar þennan skatt en árið 2009 voru þeir 187 þús. Það segir sig algerlega sjálft að þegar menn ætla að „regúlera“ reksturinn á viðkomandi stofnun gerist það með þessum hætti.

Ég tek því undir áhyggjur og ábendingar sem hv. þingmaður var með í seinni spurningunni. Hún kom líka inn á tvísköttun í ræðu sinni gagnvart lögaðilum og einstaklingum sem eru hugsanlega og eru oft og tíðum auðvitað hluti af lögaðilum.

Hins vegar hefur þessi gagnrýni komið fram um sjálfstæði Ríkisútvarpsins, um að þess vegna eigi skatturinn að renna beint inn en ekki vera ákveðinn á fjárlögum. Þá vilja menn, sumir hverjir, meina að þá sé eitthvað slitið í sundur með þeim hætti, þ.e. skatturinn, og hann renni beint til Ríkisútvarpsins.

Ég er ekki sammála þessari nálgun vegna þess að eins og hv. þingmaður benti á í andsvari sínu er það náttúrlega á valdi þingsins ef það breytir einhverjum hlutföllum sem gerir það að verkum að færri þurfa að borga þennan skatt einhverra hluta vegna, hækkar gjaldið ekki eða lækkar skattinn, þá kemur það alveg á sama stað niður gagnvart þessu sjálfstæði Ríkisútvarpsins, að mínu mati.

Mér finnst það vera miklu mikilvægara að hver einasta stofnun, og mér er alveg sama hvað hún heitir, sé á fjárlögum. Þá eigum við eðlilega umræðu hér og tökum ákvörðun um eftir vilja þingsins hvernig viðkomandi stofnun sé rekin. Ég fór yfir það áðan í ræðu minni að sumar stofnanir hafa vaxið kannski um 20% á niðurskurðartímum, bara vegna þess að þær hafa aðgang að sértekjum og mörkuðum tekjum og fá heimild til þess í lokafjárlögum tveimur árum eftir að búið er að ráðstafa tekjunum. Þetta er algerlega óþolandi.